31. mars 2015 |
Fyrsta menningarsjokk ársins
Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum gengst annað kvöld, miðvikudagskvöldið 1. apríl (nei, þetta er ekki aprílgabb), fyrir fyrsta menningarsjokki ársins, eins og Harpa Eiríksdóttir framkvæmdastjóri sýningarinnar orðar það. „Bresk áhrif verða á svæðinu, við ætlum að skella í eins og eitt pub-quiz eins og gert var á Reykhóladögum síðasta sumar við góðar undirtektir,“ segir hún, og bætir við: „Barinn verður opinn.“
Húsið verður opnað kl. 20 en spurningaleikurinn byrjar eitthvað um kl. 20.30. Léttar útskýringar Hörpu á því hvernig þetta gengur fyrir sig eru á þessa leið:
- Allavega hjá Báta- og hlunnindasýningunni mætirðu með góða skapið, það er ansi mikilvægt. Þú sest við borð með vinum eða bara einhverjum sem þú þekkir ekki. Fólkið við það borð er eitt lið, sem skal finna sér skemmtilegt og frumlegt nafn og skrifa það efst á blaðið sem er á borðinu. Gefið er aukastig fyrir frumleika og skemmtilegheit í nafninu.
- Ekki mega vera fleiri en sex saman í liði og helst ekki fleiri en fjórir. Einn spyrill er og mun hann byrja þegar væntanlega flestir eru mættir í hús, eða bara þegar honum hentar.
- Svo fer það nú bara eftir spyrlinum hvernig þetta fer fram. Stundum koma spurningar og síðan valmöguleikar, stundum bara spurningar, og liðið skal skrifa svarið á þar til gert blað í þá línu sem tilheyrir spurningunni, en þær eru allar númeraðar.
- Síðan þegar allar spurningar eru búnar eða spyrillinn sér bara ekki fram á að nenna þessu mikið lengur, þá er blöðunum safnað saman og farið yfir svörin. Það lið sem vinnur fær vinning, sem getur verið bara það sem staðarhöldurum dettur í hug að hafa.
- Barinn verður síðan opinn til svona rúmlega tvö um nóttina – já, eins konar forsmekkur þess sem verður í boði í sumar ef fólk hagar sér!