Fyrsti Skákdagur Íslands - líka á Reykhólum
Skákdagur Íslands er haldinn í fyrsta sinn í dag, fimmtudag 26. janúar. Skákhreyfingin hvetur landsmenn til að taka skák á þessum degi, alveg sama hvort þeir kunna mikið eða lítið fyrir sér. Teflt verður í matsal Reykhólaskóla í kvöld kl. 20 og allir eru velkomnir (athugið að ekki er teflt í Barmahlíð að þessu sinni). Þeir sem geta hafi með sér töfl og klukkur en slíkt er þó ekkert skilyrði.
Skákdagurinn er haldinn til heiðurs Friðrik Ólafssyni, fyrsta íslenska stórmeistaranum. Hann á 77 ára afmæli í dag og tekur virkan þátt í hátíðahöldum. Ólafur Ragnar Grímsson heldur móttöku til heiðurs Friðrik á Bessastöðum, en meðal annarra gesta verða þau börn sem í næsta mánuði tefla fyrir Íslands hönd á Norðurlandamóti barna.
Að Skákdeginum standa Skáksamband Íslands, Skákakademía Reykjavíkur, Skákskóli Íslands og taflfélög um allt land, í samvinnu við skóla, íþróttafélög, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga. Markmiðið er að heiðra Friðrik Ólafsson fyrir einstakt framlag til samfélags okkar í heild og skákarinnar sérstaklega, jafnframt því að sýna þá grósku sem er í íslensku skáklífi um allt land. Ótal skákviðburðir fara fram í dag og eru Íslendingar hvattir til að draga fram skáksettin.
Kjörorð dagsins er: Upp með taflið!
Á myndinni er lokastaðan í „Ódauðlegu skákinni“ sem Adolf Anderssen og Lionel Kieseritsky tefldu í London 1851. Smellið hér til að láta hana teflast í tölvunni. Fyrir nú utan annað er sérlega athyglisvert, að í lokastöðunni skuli svartur enn vera með alla sína menn en hvítur aðeins þrjá létta menn.
Sjá einnig:
05.01.2012 Skák: Íslandsmeistarinn gamli sigraði á Reykhólum