Tenglar

24. september 2014 | vefstjori@reykholar.is

Gæti Teigsskógarmálið tafist meira en áratug enn?

Vegamálastjóri og ráðherra skoða Teigsskóg. Ljósm. Fréttablaðið/Daníel.
Vegamálastjóri og ráðherra skoða Teigsskóg. Ljósm. Fréttablaðið/Daníel.

Samgöngumál á Vestfjörðum, þá einkum vegagerð í Gufudalssveit, voru til umræðu á Alþingi í fyrradag. Samhljómur var um að nú liði að ögurstund með vegagerð um Teigsskóg og málið þyldi ekki lengri bið. Málshefjandi var Ólína Þorvarðardóttir, varaþingmaður Samfylkingar í NV-kjördæmi, en Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og þar með ráðherra samgöngumála var til svara. Ólína óskaði eftir svörum frá ráðherra hvort ríkisstjórnin ætli að standa við fyrirheit „margra ríkisstjórna“ um vegagerð í Gufudalssveit annars vegar og um gerð Dýrafjarðarganga og uppbyggingu á Dynjandisheiði hins vegar.

 

Ólína kallaði einnig eftir afstöðu Hönnu Birnu til þeirrar hugmyndar að setja sérlög sem heimili vegagerð um Teigsskóg. Ólína hefur ekki talað fyrir sérlögum líkt og nokkrir þingmenn hafa gert, þar á meðal Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, og fleiri þingmenn NV-kjördæmis og aðrir.

 

„Áttar ráðherrann sig á því að lagasetningu má líka kæra? Það er hætt við því kannski að málaferli haldi þá áfram, verði af því. Skipulagsstofnun hefur leiðbeint Vegagerðinni í úrskurði sínum um hvað sé farsælast að gera ef menn vilja veg um Teigsskóg og hvernig væri hægt að leysa þetta mál, það er með ósk um endurupptöku umhverfismats. Það er tafsöm leið en hún er samt fær þótt hún taki nokkur ár að öllum líkindum, því að það þurfa að líða tíu ár frá upphaflegu umhverfismati,“ sagði Ólína.

 

Hanna Birna sagði Teigsskógarmálið vera „algjöra stjórnsýsluflækju“ um fullkomlega eðlilegan hlut. Um lagasetningu sagði hún: „Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól og get endurtekið það: Mér finnst að það þurfi að skoða það. Það þýðir ekki að ég muni flytja frumvarp á næstu dögum um slíkt, en ég tel það ekki útilokað. Ég tel að vandinn sé bráður, ég tel þetta eitt brýnasta samgöngumál svæðisins og eitt af brýnni samgöngumálum í landinu, þannig að ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að vinna málið frekar og klára það.“

 

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagðist hingað til ekki hafa getað mælt með setningu sérlaga um vegagerð í Teigsskógi. „Ég get þó sagt að miðað við það hvernig útfærslan á veginum hefur þróast frá upphaflegu hugmyndinni í gegnum Teigsskóg, þá finnst mér álitlegra að fara í lagasetningu en áður. Vegurinn hefur það lítil áhrif á skóginn miðað við upphaflegu útfærsluna. Ég gat ekki mælt með lagasetningu áður, en mér finnst ég geta gert það núna, sem einni mögulegri leið, sem þó er ekki fullkomin. Eins og kom fram í máli hæstvirts þingmanns Ólínu Þorvarðardóttur, þá er hægt að kæra lagasetningu. Það er því ekki víst að flækjan leysist.

 

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók undir með Ólínu og sagði að þingheimur yrði að gera sér grein fyrir að lagasetningu megi kæra. Hún vill fá verðmiða á deiluna um Teigsskóg, þannig að tími fólksins á Vestfjörðum sé líka metinn til fjár.

 

Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, fagnaði umræðu um samgöngur á Vestfjörðum. Hann tók fram að hann væri ekki vegaverkfræðingur en hann hefði séð margar góðar útfærslur frá Vegagerðinni. „Margar hverjar í góðri sátt og samlyndi með umhverfissjónarmiðum,“ sagði Óttarr. „Ég treysti því og trúi að hæstvirtur ráðherra muni taka þetta vegarnesti frá þinginu að halda vel á málum.“

 

Athugasemdir

Þorgeir Samúelsson, laugardagur 27 september kl: 02:52

Þetta Teigskógs mál ætlar að verða sagan endalausa...Hvers vegna þarf að ryðja veg um Teigskóg bara til til að draga þessa gíslatöku fólks sem býr á sunnan verðum Vestfjörðum á langinn. Þessi fyrirhugaða lagasettning er bara til þess að fresta og drag þetta mál...verður kært þvers og kruss og ekkert verður gert. Mér rennur lýka í grun að það sé ættlunin að þingmenn og ráðherrar ætli að kjafta sig frá þessu með einhverskonar neyðaröskri til að böndin berist ekki að þeim hvernig komið er fyrir í þessu volaða máli. Kollafjarða heiði var hagkvæmasti kostur í samtengingu vega á Vestfjörðum á sínum tíma...en valin var af kjörnum óvitum til setu á alþingi að fara um Steingrímsfjarða heiði...og hunsa allar þáverandi tilögur verkfræðinga og tæknimanna hjá Vegagerðinni...að taka ódýrasta kostin og fara með Djúptenginguna um Kollafjarðaheiði....þá væri fyrir laungu komin heilsárs vegur um Austur-Barðastrandasýslu til hringtengingar og tengingar við aðalvegakerfi landsins.Vestfyrðingar og sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum eiga ekki skylið þennan böðulshátt og þráhyggju útvaldra vanvita á alþingi Íslendinga...er ekki komið nó af innígripum og heimskulegum fullyrðingum um þessa framkvæmd? Afhverju vill Einar K Guðfinnsson slá út af borðinu tilögur Háskólaseturs Vestfjarða um að þvera Þorskafjörtð og hafa möguleika á að nýta sjávarföll til framleiðslu á rafmagni? afhverju er þessi sami þingmaður að berjast fyrir skólastarfi og ransóknar teymum á Vestfjörðum? Af hverju er ekki sagan sögð af öllu pólitíska plottinu sem þessir svokölluðu þingmenn okkar stunda og heilu byggðir landsisn gjalda fyrir? Nú síðast kusum við ríkistjórn sem samanstendur af Framsókn og Sjálfstæðisflokkum....ég segi flokkum...gömlu hrunflokkarnir komnir að kjötköttlunum...fólk er fljótt að gleyma...og nú er endurkoma þessara sjálftöku og þjófagengja talin sem tákn um endureysn lands og lýðs...niðurskurður samfélagsþjónustu sem allir vinnandi menn borga skatta sýna í...er bara djok...þessar skatttekjur eru notaðar í að senda fleiri uppgjafa þingmenn til svokallaðra starfa að vera sendiherrar landsins....vinnuskylda er samningsatriði....við núverandi Pappírspésa Framsóknar sem er kallaður Forsætisráherra. Ég held að fólk ætti að fara að vakna og berja tunnur á Austurvelli!!

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31