Tenglar

14. júní 2012 |

Gamla góða Karlsey loksins farin frá Reykhólum

Karlsey leggur úr Reykhólahöfn í síðasta sinn og skríður framhjá Gretti.
Karlsey leggur úr Reykhólahöfn í síðasta sinn og skríður framhjá Gretti.
1 af 2

Karlsey, flutningaskip Þörungaverksmiðjunnar, hefur loksins núna kvatt heimahöfn sína á Reykhólum, um hálfu ári seinna en til stóð og rúmu ári eftir að hún „settist í helgan stein“ þegar Grettir kom og leysti hana af hólmi. Í fyrsta áfanga var farið til Hafnarfjarðar og skipstjóri í þeirri ferð var hinn gamalreyndi Gylfi Helgason á Reykhólum. Með honum í áhöfn voru þrír menn á vegum kaupandans.

 

Á gamlársdag í vetur var hér haft eftir kaupandanum, Jóni Péturssyni í Hafnarfirði, að ráðgert væri að skipið færi frá Reykhólum mjög fljótlega eftir áramótin og færi í brotajárn í Belgíu. Núna mun hins vegar vera til skoðunar að skipið fari ekki í niðurrif að sinni heldur í einhver verkefni.

 

Gylfi segir að ferðin til Hafnarfjarðar hafi gengið eins og í sögu.

 

Þegar hann er spurður hvort það hafi ekki verið gaman að fara á Karlseynni einn túr enn er svarið klárt og kvitt: „Nei, þetta kemur ekkert við mann á þann hátt til eða frá. Þetta var bara einn túr enn, maður er búinn að fara þá svo marga um dagana.“

 

Gylfi Helgason var langlengst allra manna á Karlseynni. Hann byrjaði árið 1980 sem stýrimaður og var síðan skipstjóri á henni frá 1984 til 2009, eða í aldarfjórðung, allt þar til hann settist í helga steininn margfræga. Eftir það leysti hann þó stöku sinnum af sem skipstjóri og hefur reyndar líka leyst af á Gretti eftir að hann kom í fyrravor.

 

Þegar Gylfi var spurður í vetur hvort hann saknaði Karlseyjar, um það leyti þegar hún átti að vera í þann veginn að hverfa á vit stálbræðslunnar, svaraði hann: „Nei, ég sakna hennar ekkert. Þetta er bara járn og maður var búinn að eiga þann draum lengi að þetta skip yrði endurnýjað. En Karlsey var alla tíð farsælt skip.“

 

Karlsey var smíðuð fyrir 45 árum í Hollandi en 37 ár eru frá því að hún var keypt til Reykhóla.

 

Sjá nánar:

31.12.2011 Karlsey að kveðja eftir langa þjónustu

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31