Gangan hefur verið bæði sæt og súr
Samningur var undirritaður í fyrradag um kaup Eimskipa á öllu hlutafé í Sæferðum í Stykkishólmi. Félagið rekur Breiðafjarðarferjuna Baldur og farþegaskipið Særúnu, sem siglir með ferðamenn um Breiðafjörð. Þar starfa um 20 manns í heilsárstörfum en yfir sumarið fjölgar í hópnum og þá starfa 50 manns hjá fyrirtækinu. Velta Sæferða var um 540 milljónir í fyrra. Pétur Ágústsson og Svanborg Siggeirsdóttir hafa stjórnað rekstrinum frá upphafi og oft á tímum sýnt áræðni og dugnað í rekstri. Með sölunni á Sæferðum hverfa þau frá fyrirtækinu eftir 30 ára starf.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar segir einnig:
Þau Pétur og Svanborg hófu rekstur ferðaþjónustu í júlí 1985 og 2001 bættist rekstur Baldurs við. Pétur segir að hann hverfi sáttur frá fyrirtækinu. „Gangan hefur bæði verið sæt og súr en bjartsýnin hefur haft yfirhöndina allan tímann. Reksturinn hefur oft verið erfiður en breyttist til hins betra eftir að stærri skip komu inn í starfsemina,“ segir hann.