Gáta úr Skáleyjum: Lausn og kórrétt útgáfa óskast
Meðal þess sem komið hefur upp úr krafsinu eftir að hér var auglýst eftir kveðskap Eysteins Gíslasonar í Skáleyjum á Breiðafirði er gáta í bundnu máli, sem hann mun hafa ort fimmtán ára gamall eða þar um bil. Hún er tilfærð hér svo að lesendur geti spreytt sig á henni. Tekið skal fram, að skáldað hefur verið í eyðu í fimmta og sjötta vísuorði (fimmtu og sjöttu línu). Kann einhver vísuna með vissu? Minni Eysteins sjálfs er orðið þannig, að lítið er hægt að fræðast af honum um þetta.
Gátan er svona:
Ég er vörður um bændanna ræktaða reit
og rósirnar fóstra ég víða.
Á Suðvestur-Íslandi útkjálkasveit.
Ég er óðalið stóra og fríða.
Ég er endalaus þyrping af fannkrýndum fjöllum.
Ég fossa að ströndum með drynjandi sköllum.
Ég æði úr norðri og ýfi upp dröfn.
Ég er eldgömul stofnun í Kaupmannahöfn.
Vinsamlegast setjið lausnina EKKI í athugasemdadálkinn hér fyrir neðan. Það er lítið gaman að brjóta heilann þegar lausnin blasir við. Hins vegar má mjög gjarnan senda hana í netpósti - verðlaunin fyrir fyrsta rétta svarið eru klapp á bakið við hentugleika.
► 20.01.2012 Myndlist og ljóðlist í stigagangi í Barmahlíð
► 13.01.2012 Limrur eftir Eystein í Skáleyjum
► 11.01.2012 Hverjir luma á kveðskap eftir Eystein í Skáleyjum?