11. ágúst 2009 |
Gengið fram á gnípu og geigvæna brún
Lagt upp frá Skerðingsstöðum, gengið fram Heyárdalinn og yfir fjallið allt fram á Flókavallagnípu við Þorskafjörð.
Fyrirhugaðar eru tvær gönguferðir í Reykhólahreppi á næstu dögum. Sú fyrri annað kvöld, miðvikudagskvöld, upp á Reykjanesfjall, og hin síðari á laugardag, þar sem gengin verður gömul póstleið ofan af Þorskafjarðarheiði. Annað kvöld klukkan 19 verður lagt upp frá Skerðingsstöðum og gengið upp Heyárgötu og fram Heyárdal og allt fram á Flókavallagnípu í norðurbrún Reykjanesfjalls innan við Laugaland og síðan sömu leið til baka. Smellið á kortið til að stækka myndina (kort af vef Landmælinga). Á laugardaginn klukkan 16.30 verður komið saman hjá Björgu og Tóta í Bjarkalundi og sameinast þar í bíla. Ekið verður upp að sæluhúsinu á Þorskafjarðarheiði og síðan gengin gamla póstleiðin niður Fjalldali og Þorgeirsdal.
Að þessum gönguferðum standa þau Herdís, Ingvar, Björg og Tóti og vonast þau til að sjá sem flesta. Göngufólk þarf að hafa með sér nesti og kaffidreitil eða eitthvað slíkt.
Flókavallagnípa við Þorskafjörð mun vera sú sem séra Matthías Jochumsson frá Skógum í Þorskafirði kveður þannig um: Geng ég fram á gnípu og geigvæna brún, / djúpan lít ég dalinn og dáfögur tún ...