Gengið um sveit - aftur á næsta ári!
Farin var Jónsmessunæturganga á Vaðalfjöllin í mjög góðu veðri. Leiðsögumaður var Gauti Eiríksson.
Föstudagsgöngurnar voru undir leiðsögn Þrastar Reynissonar og Sveins Ragnarssonar. Þröstur leiddi göngur yfir Gufudalsháls og gamla heybaggaveginn við Skálanes. Um kvöldið fór Sveinn með göngugarpa í óvissuferð í Geiradal. Síðan var fiskihlaðborð að hætti hússins í Bjarkalundi.
„Langa gangan“ var á laugardag frá Hofsstöðum við Þorskafjörð að Stað á Reykjanesi. Þátttakan var frábær - þrjátíu gengu þessa leið að meðtöldum leiðsögumanni og hundi. Á Laugalandi sá Steinar veitingamaður í Álftalandi á Reykhólum um kjötsúpu fyrir mannskapinn (og hundinn) en Guðmundur frá Laugalandi sagði frá sínum bæ og gömlu sundlauginni sem þar er.
Síðasta ganga helgarinnar var á laugardagskvöld og var þá farið að álfabyggðinni Bjartmarssteini undir leiðsögn Þrastar Reynissonar.
Hjóladagurinn í Gilsfirði var vel heppnaður þó svo að verulegur norðaustanblástur hefði sín áhrif. Stundum var ámóta puð að hjóla niður brekkur og upp.
Fjölda mynda frá gönguferðunum og hjólreiðaferðinni fyrir Gilsfjörð er að finna undir Ljósmyndir > Myndasyrpur > Gengið um sveit 2011 í valmyndinni hér vinstra megin. Ýmsir tóku þessar myndir og myndasmiða er ekki getið sérstaklega. Hugsanlega bætast fleiri myndir í þessa syrpu á næstu dögum.
Ábending varðandi myndasyrpur hér á vefnum: Flettið áfram með því að smella á litlu myndina efst til hægri. Og aftur á bak, ef vill, með því að smella á litlu myndina efst til vinstri.
Guðrún Guðmundsdóttir, fimmtudagur 30 jn kl: 09:11
Þetta var rosalega skemmtileg helgi. Hlakka til á næsta ári að fara í fleiri göngur. Takk fyrir mig!