Tenglar

25. júní 2012 |

Gengið um sveit - fjöldi mynda

Útivistardagarnir Gengið um sveit í Reykhólahreppi fóru fram núna um helgina annað árið í röð. Í flestum tilvikum var góð þátttaka en ekki í tveimur. Hér er enn um tilraunaverkefni að ræða og verða lærdómar dregnir af þátttökunni. Ágæt þátttaka var í göngunum á Neshyrnu og Geitafellið undir leiðsögn Sveins á Svarfhóli. Sama er að segja um „löngu gönguna“ við Þorskafjörð og Jónsmessunæturgöngu upp á Vaðalfjöll, sem báðar voru undir leiðsögn Gauta frá Stað. Ansi lítil þátttaka var í barnagöngunni á Stað, mörg börn voru fjarverandi úr héraðinu, og hjólreiðaferðinni, en þar mættu aðeins tveir og hjóluðu einungis að Reykhólum en ekki seinni hluta leiðarinnar.

 

Myndirnar sem hér fylgja eru teknar á útivistardögunum Gengið um sveit. Miklu fleiri er að finna hér á vefnum undir:

 

Ljósmyndir > Myndasyrpur > Langa gangan 2012

Ljósmyndir > Myndasyrpur > Jónsmessuganga 2012

 

Fjölskyldugangan niður að Langavatni heppnaðist mjög vel. Gæsarungarnir hennar Hörpu Eiríksdóttur, systkinin Teisti og Teista, voru með í för og leiddu gönguna að hluta. Veður var frábært (rétt eins og alla þessa daga). Að sjálfsögðu var plöntuhandbókin tekin með.

 

Þau systkinin Teisti og Teista hafa annars komið mjög við sögu á Reykhólum að undanförnu. Þau taka á móti gestum við upplýsingamiðstöðina og Báta- og hlunnindasýninguna og jafnframt eru þar hestarnir Örn og Háleggur sem teymdir eru undir börnum.

 

Sextán manns tóku þátt í „löngu göngunni“ við Þorskafjörð þar sem gengið var fram Þorgeirsdalinn og yfir í Kollabúðadal. Lagt var upp frá Múla í Þorskafirði og haldið fram Þorgeirsdal upp á Þröskulda yfir í Fjalldali og niður Kollabúðadal. Við Selgilið bauð Steinar í Álftalandi á Reykhólum upp á kjötsúpu. Göngunni lauk á Kollabúðum þar sem Sveinn og Auður buðu upp á kaffi og meðlæti. Snilldarferð með góðu fólki og í frábæru veðri. Gangan tók eina átta tíma og þótti víst engum of mikið.

 

Jónsmessugönguna á Vaðalfjöll fóru átján manns og einn hundur. Þoka var uppi í fyrstu en síðan þokaðist hún burt og útsýnið óviðjafnanlega naut sín sem endranær. Lagt var upp frá Bjarkalundi um tíuleytið og komið var upp rétt um miðnætti. Síðan fór mannskapurinn heim aftur hver á sínum hraða - fín ferð!

 

Fólkið sem stendur að útivistardögunum Gengið um sveit vonast til að halda þeim áfram á hverju sumri. Til þess þarf samt góða leiðsögumenn. Gauti og Sveinn hafa tekið að sér leiðsögu bæði í fyrra og núna og gegnt því starfi með afbrigðum vel, að því er þátttakendur segja. Hins vegar þyrfti meiri þátttöku í sumum viðburðum.

 

Vonumst til þess að sjá sem allra flesta aftur að ári - og fleiri.

 

Endilega senda vefnum fleiri myndir frá þessum dögum!

 

P.s.: Hvað heitir hundurinn? Eða hundarnir, ef út í það fer?

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30