Tenglar

7. júní 2013 | vefstjori@reykholar.is

Gengið um sveit 2013 - leiðarlýsingar og fleira

Nestishlé í einni af göngunum í fyrra.
Nestishlé í einni af göngunum í fyrra.

Dagana 21.-24. júní eða um Jónsmessuna verður í Reykhólahreppi útivistarhelgin Gengið um sveit, sem núna er haldin í þriðja skipti. Hér er um að ræða lengri og skemmri göngur undir leiðsögn, sem ættu að hæfa öllum aldurshópum. Takmarkaður fjöldi er í löngu gönguna (kjötsúpugönguna) og mælt með því að fólk skrái sig í hana sem allra fyrst. Núna 6. júní er aðeins hægt að taka þar við örfáum í viðbót.

 

Opið er fyrir skráningu til og með 20. júní. Mælt er með að fólk skrái sig sem fyrst á netfangið info@reykholar.is eða í síma 894 1011 (Harpa Eiríksdóttir). Göngulýsingar og verðskrár eru hér fyrir neðan.

 

Hægt er að kaupa helgarpakka og fjölskyldupakka sem gefur 50% afslátt í sund í laugarnar á Reykhólum og í Djúpadal, í þaraböðin hjá SjávarSmiðjunni á Reykhólum, á Báta- og hlunnindasýninguna á Reykhólum og á sýninguna hjá Össusetri Íslands í gamla Kaupfélaginu í Króksfjarðarnesi. Þar mun Handverksfélagið Assa jafnframt veita þeim sem taka þátt í göngunum 50% afslátt af kaffi og vöfflum.

 

Þeir sem skrá sig í tvær stuttar göngur eða löngu gönguna fá afslættina líka.

 

Þeir sem skrá sig eftir 20. júní fá ekki afslætti.

 

Endilega fylgist með á Facebooksíðu gönguhelgarinnar – Gengið um sveit - Reykhólahrepp.

 

Vinsamlega deilið á Facebook!

 

 

 

 

Gengið um sveit 2013 - dagskrá

 

 

 

Föstudagur 21. júní

 

Föstudagurinn er helgaður börnunum. Hestarnir Örn, Háleggur og Mósa mæta á svæðið og aldrei að vita nema vinur þeirra hann Heykir komi með. Hestarnir koma um tíuleytið á Báta- og hlunnindasýninguna á Reykhólum og verða til klukkan fimm. Teymt verður undir krökkum kl 11.30, 12.30 og 14.30 svo krakkarnir geta komið aftur og aftur.

 

Ratleikur um Reykhóla verður kl. 16 og byrjar hjá Báta- og hlunnindasýningunni. Fengin eru svarblöð þar og fyrsta vísbendingin. Síðan mun leikurinn taka þátttakendur um Reykhóla. Leikurinn verður uppi út júní en í júlí mun nýr leikur verða settur upp.

 

Tilvalinn dagur fyrir alla fjölskylduna til að njóta í sameiningu. Deginum lýkur á barnagöngu upp að Staðarfossi á Stað á Reykjanesi kl. 18. Gott að taka með sér nesti. Gamla réttin verður skoðuð og buslað í ánni.

 

Barnagangan að Staðarfossi

  • Harpa Eiríksdóttir á Stað leiðir gönguna.
  • Mæting á Stað kl. 17.50, lagt af stað kl. 18.
  • Vegalengd um einn km, hækkun lítil.
  • Gangan tekur um tvær klst.

 

 

Laugardagur 22. júní

 

Langa gangan (kjötsúpugangan) um Hallsteinsnes

  • Leiðsögumenn Þröstur Reynisson og Sveinn Ragnarsson.
  • Langa gangan í ár verður frá Gröf í Þorskafirði að réttinni í Djúpafirði. Frábær leið sem gefur mikla möguleika á að sjá haferni.
  • Mæting kl. 10 hjá gömlu réttinni í Djúpafirði þar sem sameinast verður í bíla yfir að Gröf.
  • Engin hækkun á leiðinni að ráði.
  • Reikna má með 5-7 klst. í ferðina.
  • Boðið verður upp á kjötsúpu rétt eftir að farið er fyrir nesið.

 

Söguganga um Skóga í Þorskafirði, æskuslóðir séra Matthíasar

  • Leiðsögumaður Sveinn Ragnarsson.
  • Mæting við minnisvarðann um Kollabúðafundi í botni Þorskafjarðar, lagt af stað kl. 20.
  • Skoðaðar búðatóftir, rölt um Jochumslund, Hnausaskóg. Skoðaðar rústir eða minjar sem ekki eru til beinar heimildir um.
  • Mjög létt ganga, vegalengd ca. 1,5 km.
  • Tími ein og hálf til tvær klst.
  • Lögð verður áhersla á sögu í þessari skemmtilegu göngu. Tilvalin fyrir alla fjölskylduna.

 

 

Sunnudagur 23. júní

 

Barnaganga að Hlíð í Þorskafirði

  • Fararstjóri Rebekka Eiríksdóttir.
  • Farið verður á bílum áleiðis að Hlíð, fært fyrir jeppa.
  • Mæting kl. 15 hjá afleggjaranum að Hlíð, sem er hjá Hofsstöðum.
  • Gott að hafa nesti með sér.
  • Létt ganga með stoppi við Hlíðará og fossinn, lítil hækkun. Kannski heilsa álfarnir sem þar búa göngufólkinu.

 

Jónsmessuganga á Vaðalfjöll

  • Leiðsögumaður Sveinn Ragnarsson.
  • Mæting við Hótel Bjarkalund kl. 21.30.
  • Gangan er róleg í fyrstu og lítil hækkun. Þegar nær dregur er svolítið brattara og leiðin upp á sjálf Vaðalfjöllin er frekar brött en þó er ekki um klifur að ræða. Á toppnum er mjög gott útsýni.
  • Stefnt er að því að vera á toppi Vaðalfjalla um miðnætti.
  • Fólk fer síðan heim þegar hverjum hentar.
  • Vegalengd 3,5 km aðra leiðina. Hækkun rúmir 400 m.

 

Góða skemmtun!

Og munum að fara varlega þegar gengið er um ókunnar slóðir.

 

 

 

 

Verðskrá

 

 

 

Sögugangan um Skóga og Jónsmessuganga á Vaðalfjöll

  • Fullorðnir kr. 1.000
  • 14-16 ára kr. 500
  • 13 ára og yngri - frítt í fylgd með fullorðnum

 

Langa kjötsúpugangan um Hallsteinsnes

  • Verð með kjötsúpu:
  • Fullorðnir kr. 3.500
  • 14-16 ára kr. 2.000
  • 13 ára og yngri - frítt í fylgd með fullorðnum í gönguna en verð fyrir kjötsúpu kr. 500
  • Verð án kjötsúpu:
  • Fullorðnir kr. 2.000
  • 14-16 ára kr. 1.000
  • 13 ára og yngri - frítt í fylgd með fullorðnum

 

Barnagöngur

  • Hver barnaganga kostar 250 kr. en ef keypt er í allar fá krakkarnir afslátt hjá öllum samstarfsaðilum Gengið um sveit svo og einn frían ratleik á Báta- og hlunnindasýningunni í kaupbæti.

 

Frekari upplýsingar um útivistarhelgina er að fá í netfanginu info@reykholar.is og á Facebooksíðunni Gengið um sveit - Reykhólahrepp.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31