Tenglar

16. júní 2015 |

Gengið um sveit 2015 - dagskrá

Elfar Logi sem Grettir sterki.
Elfar Logi sem Grettir sterki.

Gönguhelgin Gengið um sveit hefur unnið sér fastan sess í Reykhólahreppi á undanförnum árum. Að þessu sinni byrjar hún með lötri þegar hestar verða teymdir undir börnum. Sjálfar gönguferðirnar verða þrjár, undir leiðsögn Sveins Ragnarssonar og Þrastar Reynissonar, og mislangar sem fyrr. Á laugardagskvöldið verður að vísu ekki gengið, heldur synt eða buslað eða setið í og við Grettislaug. Þar verður flutt leikrit í tengslum við eina af gönguferðunum og stiklað á sögu Grettis sterka Ásmundarsonar, sem var einn vetur „í sveit“ á Reykhólum líkt og fleiri sem erfitt var að tjónka við. Grettislaug hin forna og Grettislaug hin nýja rétt hjá þeirri gömlu bera nafn hans. - Sjá hér neðst varðandi bókanir og afsláttarmiða. Dagskráin er á þessa leið:

 

 

Föstudagur 19. júní

 

Hestarnir kíkja í heimsókn á Báta- og hlunnindasýninguna kl. 11 og verða þar fyrir framan til kl. 14. Hægt verður að heilsa upp á þá og verður teymt undir krökkum kl. 11.30 og 13.

 

Söguganga á Reykhólum

Leiðsögumaður Sveinn Ragnarsson.

Mæting á Báta- og hlunnindasýningunni kl. 20.

Gangan er um slóðirnar þar sem Grettir Ásmundarson bar uxann sem þeir Reykhólamenn sóttu út í Ólafseyjar. Gengið er fram í Hvalhaushólma og skoðaðar minjar. Leiðin þangað er rúmlega 1,5 km, þannig að gangan er liðlega 3 km á góðum göngustíg og hækkun engin. Lögð verður áhersla á sögu í þessari skemmtilegu göngu. Tilvalin fyrir alla fjölskylduna.

Verð:

Fullorðnir kr. 1.000.

14-16 ára kr. 500.

13 ára og yngri - frítt í fylgd með fullorðnum.

 

 

Laugardagur 20. júní

 

Langa gangan (kjötsúpugangan), Brekka-Skálanes

Leiðsögumenn Þröstur Reynisson og Sveinn Ragnarsson

Mæting hjá Skálanesi kl. 10. Safnað í bíla og ekið að Gufudalsmelunum þar sem gangan hefst. Komið aftur að Skálanesi um kl. 17. Boðið verður upp á kjötsúpu á leiðinni.

Allur ágóði af göngunni rennur til Björgunarsveitarinnar Heimamanna og munu liðsmenn hennar sjá um að færa göngufólkinu þessa líka fínu kjötsúpu.

Verð með kjötsúpu:

Fullorðnir kr. 4.000.

14-16 ára kr. 2.500.

13 ára og yngri - frítt í fylgd með fullorðnum í gönguna en verð fyrir ketsúpu kr. 1.000.

Verð án kjötsúpu:

Fullorðnir kr. 3.000.

14-16 ára kr. 1.000.

13 ára og yngri - frítt í fylgd með fullorðnum.

________________________

 

Grettir sterki kemur á fornar slóðir á Reykhólum á laugardagskvöldið, nánar tiltekið í Grettislaug, þar sem sýning hans byrjar stundvíslega kl. 21.30. Hægt verður að skella sér í pottinn eða sitja á bakkanum og horfa á. Aldurstakmark er 14 ár. Ef veður verður með leiðindi færist sýningin upp á Báta- og hlunnindasýningu. Aðgangseyrir kr. 3.000.

 

Grettir - nýtt verk úr smiðju Kómedíuleikhússins

Þar kom að því. Saga eins frægasta útlaga og vandræðagemsa allra tíma, Grettis sterka Ásmundarsonar, verður að kraftmiklum einleik úr smiðju Kómedíuleikhússins Grettir þótti ódæll í uppvexti sínum, fátalaður og óþýður, bellinn bæði í orðum og tiltektum, en fríður sýnum. Mikill kappi og svo sterkur að hann bar naut á herðum sér langan veg, eins og Reykhólafólk ætti að þekkja manna best. Lagði hann og bjarndýr sem berserki að velli og mera að segja drauginn Glám, en þeirrar viðureignar beið hann aldrei bætur andlega. Grettir var útlægur ger og loks drepinn í Drangey á Skagafirði.

Lengd sýningar 45 mínútur.

Höfundur og leikari Elfar Logi Hannesson.

Leikmynd og brúður Marsibil G. Kristjánsdóttir.

Tónlist Guðmundur Hjaltason.

Leikstjórn Víkingur Kristjánsson.

 

 

Sunnudagur 21. júní

 

Garpsdalur við Gilsfjörð

Leiðsögumaður Sveinn Ragnarsson.

Mæting við malargryfjuna við Múlaána hjá Garpsdal kl. 13. Genginn er hringur í dalnum, kringum Garpsdalsvatn og niður í fjöru við Múlaá. Leiðin er um 5,5 km á góðu landi og hækkun mjög lítil. Við Garpsdalsvatnið þarf að vaða yfir læki og kvíslar, en ekki djúpt. Mikið fuglalíf er í dalnum og þarna eru söguslóðir. Gangan tekur um 2 klukkustundir.

Verð:

Fullorðnir kr. 1.000.

14-16 ára kr. 500.

13 ára og yngri - frítt í fylgd með fullorðnum.

 

________________________

 

Hægt er að bóka sig í göngur hjá Hörpu í netfanginu info@reykholar.is eða síma 894-1011.

 

Þeir sem taka þátt í löngu göngunni eða báðum stuttu göngunum fá afsláttarmiða sem veitir eftirtalið:

Grettislaug á Reykhólum: 50% afsláttur í sund.

Sundlaugin í Djúpadal: 50% afsláttur í sund.

Sjávarsmiðjan á Reykhólum: 50% afsláttur í þaraböð.

Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum: 50% afsláttur inn á sýninguna.

Össusetur Íslands í Króksfjarðarnesi: 50% afsláttur inn á sýninguna.

 

Athugasemdir

Harpa Eiríksdóttir, rijudagur 16 jn kl: 15:56

Endilega þeir krakkar sem heimsækja hestana á föstudag að muna að taka með sér hjólahjálmana sína :)

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30