„Gengur ekki að loka um miðjan ágúst“
„Maður veltir því fyrir sér í leiðinni hvort við þurfum einfaldlega að hægja á okkur í markaðsmálum og fara að huga á ný, eins og fyrir tíu árum, að innviðum ferðaþjónustunnar. Þetta sem komið er upp á núna á þessu hausti er út um alla Vestfirði. Þetta er að gerast um allar Strandir, á suðursvæðinu, á norðursvæðinu og alls staðar hringinn í kringum Vestfjarðakjálkann, að staðir hafa verið að loka þegar vika er eftir af ágústmánuði og jafnvel fyrr og skilja eftir í uppnámi þá sem ætla sér að halda þjónustunni lengur áfram. Þetta á bæði við um grunnþjónustuna, veitingarnar, og hvers kyns afþreyingu. Ef menn ætla að haga sér svona verður það einfaldlega til þess að það verður aldrei litið á ferðaþjónustuna sem alvöru atvinnugrein.“
- Hefurðu einhverja von um að þetta geti breyst á allra næstu árum?
„Nei, ég á enga sérstaka von á því. Það er ekki í fyrsta sinn sem þetta er að gerast. Vissulega hefur verið óvenjulega mikill fjöldi ferðamanna á Vestfjörðum á þessu ári en þetta er búið að vera vandamál til margra ára. Það hefur verið haft orð á þessu hvert einasta haust að það sé fulllangt gengið að verið sé að loka um miðjan ágúst og hafa ekki opið allavega út ágústmánuð og fram í september. En það hefur ekkert breyst. Það hefur ekki nokkur skapaður hlutur breyst í ferðaþjónustu á Vestfjörðum nema að við erum búin að fá Markaðsstofuna sem heldur merkjum ferðaþjónustunnar á lofti og hvetur fólk til að koma hingað á svæðið. Það gengur sannarlega vel. En við hin sem erum að starfa í ferðaþjónustunni högum okkur mörg hver einfaldlega eins og fífl.“
Sigurður segir að þó séu aðilar sem eru að gera góða hluti á þessu sviði. „Kannski ættum við að einbeita okkur að því að halda merki þeirra á lofti og verðlauna þá einhvern veginn. Með því gætum við kannski vonast til þess að aðrir sjái að sér. Þeir sem stunda ferðaþjónustu þurfa að horfa yfir lengra tímabil. Það þarf þá breytingu á hugsunarhætti, að ferðamannatímabilið sé fimm mánuðir en ekki tveir og hálfur. Auðvitað koma dagar þar sem reksturinn borgar sig ekki en ef litið er yfir heilt tímabil er það ekki þannig“, segir Sigurður Atlason, formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða.
Sjá grein Rúnars Karlssonar: Lok lok og læs ...