Gerð verði heimildamynd um verklag í Skáleyjum
Málþing um menningar- og söguferðaþjónustu á Vestfjörðum var haldið á Ísafirði fyrir skömmu. Meðal gesta á þinginu var Jóhannes Geir Gíslason í Skáleyjum á Breiðafirði. Fjölskylda hans hefur búið í Skáleyjum frá 1750 og hefur hann hugmyndir um það hvernig megi sem best varðveita verkhefðir sem eru óðum að falla í gleymskunnar dá. Skáleyjar eru innstar svonefndra Inneyja og eru í Reykhólahreppi eins og mestur hluti Breiðafjarðareyja.
Skáleyjum tilheyra um 160 eyjar og þegar sem flest var fólkið í eyjunni voru þar fimm heimili. Upphaflega voru ábúðarpartarnir fjórir en voru svo sameinaðir í tvo jafnstóra jarðarparta. Auk þessarar skiptingar á jörðinni sjálfri voru heimili gamals fólk sem lifði af eignum sínum og svokallaðar þurrabúðir þar sem heimilismenn fóru í verið og höfðu lifibrauð af því með öðru.
Ítarlega er rætt við Jóhannes á fréttavefnum bb.is á Ísafirði um þetta mál.
„Ég var svo sem ekki með neinn fyrirlestur á málþinginu en sagði lítils háttar frá því sem er heima og ég bjó við. Ég hef mínar meiningar um hvað eigi eða þurfi að gera til að týna þessu ekki öllu niður, þekkingu um hvað náttúran gaf og og lífið þarna byggðist á,“ segir hann. „Ég vil að verklag og þekking glatist ekki og er með hugmyndir um hvað sé hægt að gera. Það er að kenna aflögð vinnubrögð en fólk spyr til hvers? Svarið er: Einfaldlega til þess að þau týnist ekki niður,“ segir Jóhannes.
„Ég hef verið að tala um að það verði gerð heimildamynd til að varðveita vinnubrögð sem notuð voru í eyjum. Ég vildi líka gjarnan að það yrði þjálfaður upp vinnuflokkur til að sjá um heyskap úti í eyjunum, og það tekur nokkur ár, en líka fyrir landið að laga sig að þeim vinnubrögðum.“ Ofgróska og órækt í eyjum liggja þungt á Jóhannesi og verður honum tíðrætt um fólk sem talar um ofnýtingu lands og litla umfjöllun um vannotkun.
Jóhannes dvelur á Reykhólum yfir vetrartímann og „er svo á rápinu út um allt“ eins og hann orðar það. Hann er með bát í Reykhólasveit sem hann siglir sjálfur út í Skáleyjar, en þær liggja næst landi af Inneyjum. Það verður spennandi að sjá hvort draumur Jóhannesar rætist um að gerð verði heimildamynd um verklag í Skáleyjum, sem víðar var með sama sniði.
Viðtalið í heild má lesa hér.