Gerólíkar skoðanir varðandi hreindýr á Vestfjörðum
Þá er nefnd slysahætta og eyðilegging vegna ágangs hreindýra. Þorsteinn segir hreindýr ekki virða venjulegar girðingar. „Það er líklegt að þau myndu leita suður í Dali, alla vega á vissum árstímum, og jafnvel niður í Borgarfjörð,“ segir Þorsteinn, sem kveður slíkt flakk myndu ganga „gjörsamlega gegn öllum hagsmunum“ vegna varnarlína við sauðfjárveiki.
Búnaðarsamband Vestfjarða hefur einnig lýst andstöðu við flutning hreindýra inn á svæðið. Sigmar B. Hauksson, fyrrverandi formaður Skotvís, segir andstöðuna byggða á misskilningi.
„Íslenski hreindýrastofninn er einn sá heilbrigðasti í heimi. Það hefur aldrei fundist hreindýr sýkt af riðu eða garnaveiki svo sannað sé á Íslandi. Hreindýr eru í nánu samband við sauðfé á Austurlandi og ekki er það vandamál,“ segir Sigmar.
Þá bendir Sigmar á að ferðamála- og umhverfisnefnd Reykhólahrepps ætli að láta kanna hvort hreindýr geti lifað á Vestfjörðum. Atvinnu- og ferðamálanefnd Vesturbyggðar skoði einnig málið.
„Framsýnir menn fyrir vestan vilja einfaldlega rannsaka hvort þetta sé gerlegt. Vægi sauðfjárræktar hefur minnkað mjög mikið á Vestfjörðum og þar vantar sárlega atvinnutækifæri. Hjörð hreindýra gæti lengt ferðaþjónustutímabilið um tvo mánuði og það skilað minnst 500 milljóna króna tekjum. Menn eiga að skoða málin til hlítar áður en ákvörðun er tekin,“ segir Sigmar B. Hauksson.
12.04.2011 Hreindýr á nefndafundum í Reykhólahreppi