Gert ráð fyrir stóraukningu handbærs fjár sveitarsjóðs
Fjárhagsáætlun Reykhólahrepps fyrir árið 2013 var samþykkt við síðari umræðu á fundi hreppsnefndar í fyrradag. Um leið var einnig samþykkt fjárhagsáætlun fyrir næstu þrjú ár á eftir, þannig að hér er í rauninni um fjögurra ára áætlun að ræða eða fyrir árin 2013-1016. Þetta er nýlunda, en fram að þessu hefur verið ekki verið gengið frá áætlun fyrir næstu ár hverju sinni fyrr en síðar.
Nokkrar lykiltölur í fjárhagsáætlun má lesa í fundargerð hreppsnefndar í gær (reiturinn Fundargerðir hér neðst til vinstri).
Athygli vekur sá meginmunur frá síðustu fjárhagsáætlun fyrir næstu ár, að núna er gert ráð fyrir verulegri aukningu á handbæru fé sveitarsjóðs ár frá ári eða úr 49 milljónum króna árið 2013 upp í 113 milljónir árið 2016 (á föstu verðlagi). Ástæðan er sú, að gert er ráð fyrir stórauknum framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Jafnframt er gert ráð fyrir því að eigið fé aukist á þessu tímabili úr 317 milljónum króna í 383 milljónir (á föstu verðlagi).
Einar Örn Thorlacius fyrrv.sveitarstjóri Reykhólahrepps, fstudagur 14 desember kl: 08:56
Þetta lítur nú aldeilis vel út!