Tenglar

15. janúar 2013 | vefstjori@reykholar.is

Gildistöku laga frestað í smærri sveitarfélögum

(Mynd tekin af vef Alþingis).
(Mynd tekin af vef Alþingis).

Ný upplýsingalög sem samþykkt voru á Alþingi rétt fyrir jól taka ekki til sveitarfélaga með íbúafjölda undir eitt þúsund manns, svo sem Reykhólahrepps, fyrr en eftir þrjú ár eða í ársbyrjun 2016. Þangað til gilda ákvæði eldri upplýsingalaga frá 1996. Gagnvart fjölmennari sveitarfélögum tóku nýju lögin hins vegar gildi núna um áramótin. Erindi varðandi þetta mál frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga var kynnt á síðasta fundi hreppsnefndar Reykhólahrepps.

 

Í umsögnum Sambands íslenskra sveitarfélaga á síðustu árum var ítrekað bent á, að breytt lög myndu hafa íþyngjandi áhrif á stjórnsýslu sveitarfélaga. Í kostnaðarmati vegna frumvarpsins var m.a. komist að þeirri niðurstöðu, að ákvæði nýrra laga myndu útheimta viðbótarvinnu í stjórnsýslu sveitarfélaganna og um marktæka aukningu væri þar að ræða.

 

Brugðist var við athugasemdum sambandsins með því að í gildistökuákvæði laganna er mælt fyrir um að reglur eldri laga haldi gildi sínu til 1. janúar 2016 gagnvart sveitarfélögum með íbúa undir 1.000 manns við gildistöku laganna.

 

Stærri sveitarfélög munu hins vegar þurfa að afgreiða upplýsingabeiðnir sem berast frá og með síðustu áramótum í samræmi við ákvæði nýju laganna. Þá verður þessum stærri sveitarfélögum einnig skylt að hafa meira frumkvæði að birtingu upplýsinga með rafrænum hætti, m.a. þannig að skrár yfir mál og listar yfir málsgögn verði aðgengilegir á vefnum.

 

Markmið nýju laganna, eftir því sem segir í 1. grein þeirra, er að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna, m.a. í þeim tilgangi að styrkja upplýsingarétt og tjáningarfrelsi, möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi, aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum, möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni og traust almennings á stjórnsýslunni.

 

Upplýsingalög nr. 140/2012 (nýju lögin)

Upplýsingalög nr. 50/1996 (gömlu lögin sem gilda fyrir m.a. Reykhólahrepp næstu þrjú ár)

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Janar 2025 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31