Tenglar

21. ágúst 2009 |

Girðingarleifar verða fénaði að fjörtjóni

Tómas slítur hluta af girðingarflækjunni upp úr lambahræjunum.
Tómas slítur hluta af girðingarflækjunni upp úr lambahræjunum.
1 af 3
Þegar Tómas Sigurgeirsson bóndi á Reykhólum fór í dag að huga að berjasprettu í úthaga Reykhóla innst á Barmahlíð gekk hann fram á rytjur af tveimur lömbum sem höfðu flækst í girðingarleifar og borið þar beinin. Merki sem lömbin höfðu borið sýndu að þetta voru tvílembingar í eigu Tómasar. Hann telur líklegt að þau hafi drepist fyrri hlutann í júlí og verið lengi að veslast upp. Þetta er skammt frá sumarbústað sem stendur í landi Hyrningsstaða neðan við veginn og segir Tómas að löngu ónýt girðing hafi legið þarna í flækju en núna sé loks búið að fjarlægja hana. Þó voru eftir leifar af girðingunni þar sem lambarytjurnar liggja en þarna hafði verið um möskvagirðingu með rafmagni að ræða. Slík girðing er líkust bandi viðkomu en ekki málmi og stórhættuleg dýrum.

 

Nokkrum metrum fyrir neðan lambahræin drapst ær frá Tómasi í girðingarflækjunni á síðasta ári. Ljóst var að ærin hafði lifað þar lengi föst því að gróðurinn var þrautnagaður á eins fermetra bletti eða svo. Núna eru bein hennar dreifð nokkuð niður frá þeim stað. Tómas kvaðst þegar í fyrra hafa kvartað við eiganda sumarbústaðarins, sem jafnframt var eigandi girðingarinnar, og óskað eftir því að hún yrði fjarlægð, en án árangurs á þeim tíma. „Hann hefur líklega fengið samviskubit núna þegar hann sá dauðu lömbin til viðbótar", segir Tómas.

 

„Það er ekki í lagi að menn hagi sér svona. Það er ekki neitt að missa þetta fé á móti því að það hefur verið lengi að kveljast til dauða. Þetta er ekki í alfaraleið og enginn sér þetta nema gengið sé góðan spöl niður í skóginn fyrir neðan þjóðveginn", segir Tómas Sigurgeirsson.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31