Glæðir: Salan um 70% meiri en á sama tíma í fyrra
Um miðjan maí í fyrra eða fyrir réttu ári kom fram hér á vefnum að salan á Glæði, gróðuráburðinum úr breiðfirsku þangi sem Guðjón Dalkvist Gunnarsson (Dalli) á Reykhólum framleiðir, væri að nálgast alla söluna árið 2011. „Það sem af er í vor virðist aukningin halda áfram þó að of snemmt sé að slá neinu föstu um heildarsölu ársins,“ segir hann, „en fyrstu fjóra mánuði þessa árs er salan í litlum brúsum um 70% meiri en á sama tíma í fyrra.“
Dalli segir að síðustu árin hafi sala á Glæði í stórum brúsum (25 lítra) minnkað en salan í litlum brúsum (eins lítra og fimm lítra) stóraukist.
Fimmtán ár eru síðan Dalli byrjaði tilraunir með þangvökva til áburðar. Hráefnið er klóþang, vatn og kalíumsódi og hæg heimatökin á Reykhólum hvað þangið varðar. Fyrstu árin eftir að framleiðslan hófst fóru í prófanir fagmanna í garðyrkju og kynningu en vorið 2001 kom Glæðir á almennan markað.
Glæðir er lífrænn áburður úr íslensku hráefni sem nota má við lífræna ræktun. Hann hentar jafnt að vori sem hausti á grasflatir og tré og blóm bæði úti og inni. Vökvinn eins og hann kemur úr brúsunum er blandaður vatni til vökvunar og úðunar.
Dalli bruggar Glæði í bílskúrskjallaranum sínum við Hellisbraut á Reykhólum og segir að framleiðslan sé einföld. Stórverslanir eru með Glæði til sölu í minni brúsunum, svo sem Bónus og Blómaval.
Hlynur Þór Magnússon, umsjónarmaður vefjarins, fimmtudagur 16 ma kl: 20:06
Fróm ósk: Afskaplega þætti mér vænt um það, ef fólk sem hefur góða reynslu af Glæði eða hefur trú á þessum lífræna gróðuráburði frá Reykhólum og vill stuðla að útbreiðslu hans, deili þessari frétt á Facebook. Slíkt gildir vissulega líka um annað sem fólki kann að líka vel á þessum vef - deilingar skipta afar miklu máli.