Glæðir frá Reykhólum: Loflegir dómar fagfólks
Núna eru fimmtán ár síðan lífræni gróðuráburðurinn Glæðir var settur á almennan markað, en nokkur ár þar á undan hafði höfundurinn Guðjón D. Gunnarsson (Dalli) á Reykhólum unnið að þróun, tilraunum og rannsóknum í samvinnu við fagmenn í garðyrkju þangað til rétta blandan taldist vera fundin.
„Glæðir er áburður sem ég hef tekið ástfóstri við. Ég notaði vökvann fyrst 1998 þegar ég var ræktunarstjóri hjá Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá á árunum 1997-2000. Dalli kom á þeim árum með 20 lítra dunk og bað mig að prófa. Ég vökvaði skógarplöntur og trjáplöntur í pottum og þær urðu frískari við áburðargjöfina,“ segir Auður Ingibjörg Ottesen, garðyrkjufræðingur og ritstjóri.
Glæðir samanstendur af klóþangi úr Breiðafirði, íslensku vatni og kalísóda, sem Dalli sýður saman. „Mestur tíminn fór í að finna réttu hlutföllin,“ segir hann. Þangið hefur löngum verið þekkt fyrir heilnæma eiginleika sína. Í því er fjöldi snefilefna sem nýtist gróðri. Síðustu árin hefur salan á Glæði verið milli fimm og sex tonn á ári.
... og það slær á kvikindin
„Frá aldamótum hef ég verið ritstjóri tímaritsins Sumarhússins og garðsins og notað Glæði sem áburð á plönturnar sem ég er með inni við og er að rækta,“ segir segir Auður ennfremur. „Ég vökva pottaplönturnar mínar allt árið með daufri lausn og verð varla vör við lauffall eða lasleika fyrir vikið. Ef lús álpast á inniplönturnar, þá úða ég á þær með nær óblönduðum Glæði og það slær á kvikindin. Ég nota líka Glæði til að vökva með garðplönturnar og yfir laufin til að gera þær ólystugar fyrir skordýrin. Glæðir er einnig góður í matjurtarækt þegar skortur er sýnilegur á snefilefni.“
Varðandi upphafið á framleiðslu Glæðis segir Dalli:
„Í nokkur ár hafði ég gælt við hugmyndina og fiktað við þróun hans, fengið efnagreiningar og gefið honum nafn. Lógóið gerði góður maður fyrir mig og ég fékk það prentað á umbúðir og merkimiða, ásamt innihaldslýsingu og notkunarleiðbeiningum, og síðan fór áburðurinn á almennan markað vorið 2001.“ Hann segir að Glæðir hafi strax fengið góðar móttökur í blómaverslunum en salan hafi ekki verið mikil fyrstu árin, nema fáeinar stórar sölur til verktaka. „Margir af þessum viðskiptavinum halda tryggð við mig enn í dag,“ segir hann.
Glæðir glæðir græna litinn
Meðal viðskiptavina sem hafa þrautreynt Glæði er Sædís Guðlaugsdóttir garðyrkjufræðingur, sem rekur Gróðrarstöðina Gleym-mér-ei í Borgarnesi. Hún segir um Glæði að hann sé fín áburðargjöf til að bæta blaðgrænuna (græna litinn) í öllum útigróðri.
„Við hjá Mosfellsbæ höfum notað áburðinn Glæði í þó nokkur ár og hann hefur reynst okkur einstaklega vel“, segir Bjarni Ásgeirsson skrúðgarðyrkjumeistari, sem áður vann í Blómavali en er nú garðyrkjustjóri Mosfellsbæjar.
Plönturnar fljótar að róta sig og hefja vöxt
„Áburðurinn hefur mest verið notaður á sumarblómin hjá okkur og það er staðreynd, að eftir að við fórum að nota hann hafa blómin bæði verið mun sterklegri og frísklegri og dafnað afar vel langt fram eftir sumri. Einnig höfum prófað að vökva með honum þar sem við höfum verið að planta trjám og runnum. Það hefur líka reynst vel, plönturnar eru fljótar að róta sig og hefja vöxt,“ segir Bjarni.
Til skamms tíma fór Dalli söluferðir að heimsækja viðskiptavini og afla nýrra og eignaðist þannig marga góða vini. Ferðirnar takmörkuðust við vesturhelming landsins frá Eyjafirði að Hellu og hefur því sala til Austurlands nánast eingöngu verið í gegnum Blómaval og Aðföng. „Vegna aldurstengdar leti minnar hafa þessar ferðir að mestu lagst niður,“ segir hann.
Milli fimm og sex tonn á ári
Blómavalsverslanirnar voru langsöluhæstar frá upphafi og þegar Aðföng (Bónus) bættust við jókst salan mikið, og jafnframt gerði Blómaval árangursríkt söluátak. Að sögn Dalla hefur salan síðustu ár hefur verið nokkuð stöðug, milli fimm og sex tonn á ári. Stærsti hlutinn er í eins lítra umbúðum og nokkuð í fimm lítra brúsum og stærri. „Fáein sveitarfélög eru dugleg að kaupa tuttugu lítra brúsa, meðal annars fyrir vinnuskóla.“
Vinnuaðstæðurnar hjá Dalla við framleiðsluna eru frumstæðar, segir hann. „En með tilkomu bílskúrsins hafa þær batnað mjög, sérstaklega fyrir átöppun.“ Áður fór Glæðisbruggunin fram í bílskúrskjallaranum, sem er miklu eldri en bílskúrinn sjálfur.
Ragnheiður Alfreðsdóttir, fimmtudagur 07 jl kl: 14:01
Má nota Glæði í matjurtagarða?