Tenglar

9. mars 2011 |

Glæsilegur listdansari úr Reykhólasveit

Ellen Margrét Bæhrenz. Mynd: Pjetur / Fréttablaðið.
Ellen Margrét Bæhrenz. Mynd: Pjetur / Fréttablaðið.
Á forsíðu innblaðsins Allt í Fréttablaðinu í gær er stór mynd af listdansaranum Ellen Margréti Bæhrenz og spjall við hana. Því er þess getið hér, að amma hennar er Lóa á Miðjanesi og móðir hennar er Hjördís Vilhjálmsdóttir frá Miðjanesi. Ellen Margrét sigraði í sólóballettkeppni Félags íslenskra listdansara í síðustu viku. „Ég byrjaði að dansa þegar ég var þriggja ára. Fyrst var ég í Ballettskóla Eddu Scheving en þegar ég var níu ára fór ég í Listdansskóla Íslands og er þar enn“, segir hún.

 

Keppnin þar sem Ellen vann er undankeppni fyrir Stora Daldansen, sem er árleg ballettkeppni Norðurlanda og Eystrasaltslanda og haldin í Svíþjóð. Ellen Margrét tók þátt í þeirri keppni í fyrra og varð þá í þriðja sæti.

 

Friðrika Benónýs blaðamaður á Fréttablaðinu spurði hvort hún ætlaði að gera betur í ár. „Ég geri allavega mitt besta, en það er ekki hægt að ákveða slíkt fyrirfram“, sagði Ellen hlæjandi.

 

Stúlkan unga og efnilega er vissulega ekki ókunnug í Reykhólasveitinni. Hún hefur allt frá fyrstu tíð verið mikið á Miðjanesi við almenn sveitastörf sem henta börnum og unglingum, að snúast kringum kýr og kindur og taka þátt í smalamennskum og dúnleit, svo eitthvað sé nefnt. „Hún er líka svo fjárglögg“, segir Lóa amma hennar.

 

Ellen segist stefna á að gera ballettinn að aðalatvinnu í framtíðinni og þessa dagana er hún að velta því fyrir sér hvert hún eigi að fara í framhaldsnám. Hún er þó ekkert að falla á tíma, því að átján ára afmælið er nýafstaðið. „Það er ekki alveg á hreinu að ég fari út“, segir hún, „en mig langar mjög mikið til þess og stefni að því.“

 
Hin gríðarlega vinna við ballettæfingarnar er reyndar alls ekki eina viðfangsefnið hjá Ellen Margréti þessi árin. Hún er við nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð og stendur sig þar með ágætum.
 

Að þessu sinni voru þátttakendur í ballettkeppninni 26 talsins á aldrinum 15-20 ára. Hún var haldin í Íslensku óperunni. Að baki liggur mikil vinna við þrotlausar æfingar síðustu vikur og mánuði, segir á vef Félags íslenskra listdansara. Það þarf að finna rétta sólóinn sem passar viðkomandi dansara og svo að fínpússa allar hreyfingar, túlkun og tónlist, finna réttan búning sem passar hlutverkinu og svo framvegis.

 

Myndina á forsíðu Allt, sem hér fylgir, tók Pjetur Sigurðsson, ljósmyndari Fréttablaðsins.

 

Vefur Félags íslenskra listdansara

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31