Glæsiþyrla í útsýnisflugi á Reykhólum
Þrátt fyrir endalausa afþreyingu á Reykhóladögum fór ekki hjá því að glæsiþyrla sem var í útsýnisferðum á Reykhólum vekti athygli heimafólks jafnt sem gesta. Hún fór í krúsidúllur yfir bænum og brá sér út og suður en lenti þess á milli við gistiheimilið Álftaland. Þarna var á ferðinni spánný farþegaþyrla frá Þyrluþjónustunni hf. með einkennisstafina TF-HHH en fyrirtækinu stjórna systkini Steinars Pálmasonar í Álftalandi. Sigurður Pálmason framkvæmdastjóri var á Reykhólum um helgina og lét flugmann koma með vélina til að fara í útsýnisflug með gesti Álftalands. Farþegarnir voru fimm eða sex í hverri ferð.
Þyrluþjónustan hf. er rótgróið fyrirtæki í útsýnisflugi og hefur ekki síst getið sér orð fyrir farþegaflug að eldgosum.
Fyrirtækið fékk nýju þyrluna sem er af gerðinni Bell 407GX núna í byrjun sumars. Hún er fyrsta þyrlan til farþegaflugs sem keypt er ný til landsins.
Myndirnar sem hér fylgja voru teknar bæði af þyrlunni og í henni á Reykhóladögum.