Tenglar

17. nóvember 2011 |

Glasgowferð Kötlu: Nærbuxnakaup og gaman

Myndir úr ferðinni: Indiana Ólafsdóttir.
Myndir úr ferðinni: Indiana Ólafsdóttir.
1 af 3

Skotlandsferð Kvenfélagsins Kötlu í Reykhólahreppi í byrjun þessa mánaðar gekk með ágætum. Þegar heim var snúið voru í farteskinu nærbuxur litlu færri en heildarfjöldi fólks í sveitarfélaginu. Meira en ár er síðan félagskonur ákváðu að bregða undir sig betri fætinum og skreppa til Glasgow í nokkra daga þannig að undirbúningstíminn var vel rúmur. Átján fullgildar félagskonur fóru í þessa ferð auk þriggja utanfélagskvenna.

 

Lagt var upp frá Keflavík árla á fimmtudagsmorgni og lent í Glasgow um hádegi. Eftir að tékkað hafði verið inn á hótelið var farið að skoða helstu verslunargötuna til að skanna svæðið enda eitt af markmiðum ferðarinnar að fylla tómar ferðatöskur.

 

Konurnar borðuðu saman öll þrjú kvöldin í Glasgow og var þá margt skemmtilegt rætt og mörg atriði samin fyrir komandi þorrablót. Í lokahófinu var kannað hversu mikið hefði verið verslað. Meðal helstu niðurstaðna má nefna, að keyptar voru 257 nærbuxur á stóra sem smáa og 62 pör af skóm.

 

Meðan dvalist var í borginni við Clyde-ána í Láglöndum Skotlands biðu konurnar spenntar eftir því að félagi þeirra Kolfinna Ýr Ingólfsdóttir eignaðist sitt fjórða barn heima á Fróni. Snáðinn sá ákvað hins vegar að bíða aðeins og leit ekki dagsins ljós fyrr en eftir að hópurinn var kominn heim.

 

Í Skotlandi gengu tvær konur í Kvenfélagið Kötlu, að vísu ekki skoskar heldur rammíslenskar. Þannig eru nú 45 konur í félaginu og verður það að teljast mjög hátt hlutfall í sveitarfélagi með um 280 íbúa eða rétt um 16% af íbúafjöldanum.

 

„Ferðin var hin besta skemmtun. Við erum strax farnar að skipuleggja næstu ferð!“ segir formaður Kvenfélagsins Kötlu, Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir á Litlu-Grund.

 

Meðfylgjandi myndir tók Indiana Ólafsdóttir á Reykhólum. Fleiri myndir sem hún tók í ferðinni er að finna undir Ljósmyndir > Myndasyrpur í valmyndinni vinstra megin.

 

01.11.2011  Kvenmannslaus í kulda og trekki kúri ég volandi

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Janar 2025 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31