Tenglar

13. desember 2013 | vefstjori@reykholar.is

Glefsur úr Gróu hans Jóa í Skáleyjum

1 af 2

Nokkrir tugir eintaka af Gróu, bók Jóhannesar Geirs Gíslasonar (Jóa í Skáleyjum) hafa selst í Hólakaupum á Reykhólum frá því að hún kom út um fyrri helgi. Bókin hefur að geyma minningar frá lífinu í Breiðafjarðareyjum og við Breiðafjörð, samantektir um fólk og viðburði, gamansögur og aðrar sögur sannar eða lognar (sbr. heiti bókarinnar), kvæði og lausavísur eftir Jóa sjálfan og aðra, og urmul mynda frá ýmsum tímum. Undirtitill bókarinnar er Gróusögur nútímans af heimaslóðum höfundar. Í inngangsorðum segir Jóhannes:

 

  • Okkur Gróu á Leiti hefur alla tíð komið vel saman. Við erum lík. „Ólyginn sagði mér en berðu mig ekki fyrir því blessuð.“ Sagði hún.
  • „Slefberi“ var hún kölluð og fyrirlitin, enda sáu margir sjálfan sig í henni.
  • Nú á dögum eru glanstímarit, loft- og ljósvakamiðlar, fésbók og hvað má ekki nefna sem reist er á iðju hennar. Kannski er fréttamennska ríkasta, gjöfulasta, kostnaðarmesta iðja heimsins. Það ætti að reisa Gróu minnismerki ekki minna en frelsisstyttuna amerísku.
  • Skyldi ég verða fyrstur til að reyna að nota nafn hennar mér til framdráttar?
  • Hvort eftirfarandi þættir eru Gróulegir læt ég lesendum mínum eftir að dæma. Ég vona að þeir beri umhverfi mínu og sjálfum mér nokkurt vitni. Ætlunin er að þeir beri vitni samtímamönnum mínum og þeim sem gengnir eru fyrr og sagt er frá. Kjörum þeirra og hugsunarhætti. – Lesandi góður. Hafðu gaman af eða dæmdu mig svo sem þér líkar.
  • Efnið er til orðið á mörgum árum. Þegar ég les það yfir rek ég mig á að Gróusálminn hef ég sungið hvað eftir annað. Ég bið þig afsökunar, lesandi góður.

 

 

Hér segir Jói frá afa sínum og ömmu

(tvær klausur úr frásögn hans á ættarsamkomu í Breiðfirðingabúð árið 2007)

 

Þegar Jóhannes og María giftu sig voru Kristín og Gísli enn búandi og ungu hjónin fengu ekki ábúðina fyrr en árið 1899, en þá var Gísli dáinn. Þá höfðu þau verið í húsmennsku og hjú foreldra sinna í fimm ár og á þeim fimm árum höfðu þeim ekki fæðst nema þrjú börn. Ótrúlegur seinagangur því seinnihluta barneignatímans áttu þau krakka á hverju ári.

 

Á nútíma mælikvarða þykir flestum mál að hætta þegar komin eru þrjú börn á fimm árum en þau kunnu ekkert að hætta svo þess vegna urðu börnin 10 á 15 árum. Hefði það ekki orðið væri heldur betur þynnri hópurinn sem hér er saman kominn nú.

 

Jónína Hermannsdóttir, kaupmaður í Flatey, ólst upp hjá Kristínu Pétursdóttur einhvern hluta uppvaxtaráranna eftir að Jóhannes og María voru orðin hjón. Hún sagði mér frá ýmsu, m.a. því að þau sváfu aldrei saman.

 

Hann átti sér svefnkompu á neðri hæð baðstofuhúss Innribæjarins en hún svaf uppi á framlofti baðstofunnar með barnaskarann en trúlega hefur einum og einum króga verið holað niður hjá ömmunni og hjúunum í innra rými baðstofunnar, sem var heldur stærra en framloftið og þar var uppgangurinn af neðri hæðinni.

 

„Hvernig fóru þau að því að eiga alla þessa krakka fyrst þau sváfu aldrei saman?“ spurði ég Jónínu Hermannsdóttur. Og Jónína svaraði af mestu hógværð: „Nú hún kom stundum seint upp blessunin.“

 

– – –

 

Jóhannes dó 54 ára að aldri árið 1918. Fáir eru því þeir sem muna hann og enginn okkar. Bergsveinn Skúlason, tengdasonur þeirra, sagði mér gleggst af hvernig það bar til. „Hann var ágætiskarl hann Jói“ sagði Beggi, „bölvuð skömm að því hvernig hann dó. Hann varð eiginlega úti.“

 

Ég varð allur að augum og eyrum. Þannig bar þetta til, að hann hafði lengi verið kviðslitinn. Svo var það á köldum en veðurgóðum maídegi að hann fór inn í Norðurlönd að smala. Þegar leið á kvöldið var farið að undrast um hann og fólk tók eftir því að ærnar höfðu ekki verið látnar inn. Hann fannst inni í Seleyjum, hafði misst út kviðslitið, ekki komið því að sér og lá þar ósjálfbjarga. Við vitum ekki hvernig hann komst heim. Kannski var hann borinn á börum og þó að væri að honum hlúð hefur hann vafalaust verið orðinn innkulsa. Þetta hefur tekið talsverðan tíma.

 

Það komu til hans þrír læknar. Einn úr Flatey, einn úr Stykkishólmi, þriðji frá Miðhúsum á Reykjanesi. Að ná þeim þarna saman hlýtur að hafa tekið 2-3 daga árið 1918, án fjarskipta, án vélbáta, án vega.

 

Þeir skáru hann upp í svefnherberginu hans. Aðgerðin var sögð hafa tekist vel en hann vaknaði aldrei af svæfingunni, trúlega vegna kvefsins af ofkælingunni, get ég giskað á.

 

Hvernig maður var hann? Samtíma heimildir eru til. Yngri börnin hans, innan við fermingu þegar hann dó, minnast þess ekki að hann væri hlýr maður og hann gældi lítið við þau. „Ég held hann hafi verið leiður á öllu þessu barnadrasli“ sagði Día. Aðrir vitnuðu jákvæðar.

 

„Einstakur öðlingur“ sagði Jón á Skálanesi. „Verkgammur og vinnuelja um skör fram og sást ekki fyrir“ vitnaði Sveinbjörn Guðmundsson sagnamaður. „Alltaf á sprettinum, fór oft geyst á milli húsa að gegningum loknum. Ákafur í að komast sem fyrst í vefstólinn“ sagði hann. „Hann var svo fjárglöggur að sæi hann í dindilinn yfir á Stóru-Lyngey, þá þekkti hann rolluna“ sagði Sveinki fósturbróðir hans.

 

En vænst þykir mér um vitnisburð ömmu: „Þú átt að verða góður maður, elskan mín, eins og afi þinn og nafni, þá mun þér vel farnast“ sagði hún við mig. Æðsta óskin hennar til mín var að ég yrði honum líkur.

 

Textinn undir mynd nr. 2 er þannig í bókinni: Síðustu geirfuglar fastrar búsetu: Eysteinn, Kristbjörg, Jóhannes. „Síðasta föst búseta“ e.t.v. aðeins í bili. 2008 tók 7. kynslóð við ráðum. - Eysteinn Gísli Gíslason (Eysteinn í Skáleyjum) bróðir Jóhannesar Geirs andaðist á Dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum í fyrrasumar. Kristbjörg Inga Magnúsdóttir, síðasta húsfreyja fastrar búsetu í Skáleyjum (e.t.v. aðeins í bili), er sambýliskona Jóa.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31