Gleraugnaglámar horfa á sólina hverfa
Brynjólfur Víðir Smárason frá Borg og Guðmundur Ólafsson á Grund voru meðal þeirra sem fylgdust með sólmyrkvanum í Reykhólasveit í morgun. Þeir tóku aðvaranir alvarlega eins og vera ber og voru flestum betur sól-gleraugnavæddir, eins og sjá má á þessari mynd sem Hlynur Stefánsson tók.
Vel viðraði fyrir sólmyrkva í Reykhólasveit að þessu sinni; glaðasólskin nema rétt þá litlu stund þegar máninn tróð sér fyrir sólu (eða sólin bak við mánann). Fuglar þögnuðu ekki á meðan sólin formyrkvaðist eins og gerðist í síðasta almyrkva (30. júní 1954). Ástæðan er sú, að núna voru engir fuglar byrjaðir að syngja.
Næstu almyrkvar á sólu verða svo 12. ágúst 2026 og síðan 14. júní 2151, þannig að það er eins gott að passa upp á sól(myrkva)gleraugun þangað til.
Um sólmyrkvann - Stjörnufræðivefurinn