Tenglar

22. febrúar 2010 |

Góa á til grimmd og blíðu ...

Í framhaldi af smáfrétt og pistilkorni Guðjóns D. Gunnarssonar á Reykhólum hér á vefnum í síðustu viku um gömlu íslensku mánaðaheitin sendi Indiana Ólafsdóttir á Reykhólum braginn hér fyrir neðan, þar sem eiginleikum hvers mánaðar er fléttað við nöfnin. Ekki kemur fram hver ort hefur þennan brag og mætti alveg eins ætla, þangað til annað kemur í ljós, að þetta sé gamall húsgangur og ekki vitað um höfund. Myndin er hins vegar af snjóhúsi sem reis við Hellisbraut á Reykhólum eftir óveðurskaflann um jólin og minnir á að fátt er svo með öllu illt ...

 

          Mörsugur á miðjum vetri

          markar spor í gljúfrasetri.

 

          Þorri hristir fannafeldinn,

          fnæsir í bæ og drepur eldinn.

 

          Góa á til grimmd og blíðu

          gengur í éljapilsi síðu.

 

          Einmánuður andar nepju,

          öslar í garð og hendir krepju.

 

          Harpa vekur von og kæti,

          vingjarnleg og kvik á fæti.

 

          Skerpla lífsins vöggu vaggar,

          vitjar hrelldra, sorgir þaggar.

 

          Sólmánuður ljóssins ljóma

          leggur til og fuglahljóma.

 

          Heyannir og hundadagar

          hlynna að gæðum fróns og lagar.

 

          Tvímánuður allan arðinn

          ýtum færir heim í garðinn.

 

          Haustmánuður hreggi grætur

          hljóða daga, langar nætur.

 

          Gormánuður, grettið tetur,

          gengur í hlað og leiðir vetur.

 

          Ýlir ber og byrgir sólin,

          brosa stjörnur, koma jólin.

 

Athugasemdir

Dalli, rijudagur 23 febrar kl: 13:51

Þetta er ævagamalt, eldra en ég. Ég hef ekki heyrt þetta í heild fyrr, en Sólrún í Gilsfjarðarmúla fór oft með eitt og eitt erindi eftir því sem við átti hverju sinni.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31