2. desember 2014 |
Gömlu fjármörkin í endurnýjun lífdaganna
Ekki alls fyrir löngu eða sumarið 2008 var hér á vefnum greint frá sérstæðri sýningu undir heitinu Þrírifað í þrístýft og þrettán rifur ofan í hvatt. Þarna var um að ræða verkefni sem nemendur í Reykhólaskóla unnu en kennararnir Kolfinna Ýr Ingólfsdóttir og Rebekka Eiríksdóttir höfðu umsjón með því. Um var að ræða fjármörk í Reykhólahreppi og heiti þeirra og voru einstök eyrnamörk alls 63 talsins. Sýningin var uppi þetta sumar á Sauðfjársetri á Ströndum en hefur síðan verið heima í Reykhólaskóla.
Núna er nýstofnuð hönnunarstofa syðra sem heitir Terta Duo líka komin á stjá með gömlu fjármörkin. Í tilkynningu segir að stofnendur hennar hafi reynslu úr ýmsum áttum, t.d. barnamenningarhönnun og landslagsarkitektúr. Þar segir síðan:
- Það sem einkennir fyrstu verkefni Terta Duo eru eyrnamörkin. Fyrsta verkefnið er dæmi um íslenska hönnun þar sem þjóðlegt og nýstárlegt kemur saman á alveg nýjan hátt, en við höfum tekið saman 72 eyrnamörk, sem bændur hafa notað öldum saman og sett þau upp sem fallega heild. Fyrir einhverja gæti þetta litið út eins og fallegt safn af abstrakt formum en fyrir aðra geta mörkin verið mun persónulegri.
- Núna er fyrirtækið að þróa og framleiða fleiri vörur sem eru hannaðar út frá eyrnamörkunum og frumsýningin verður um helgina á Pop-Up markaði í Listasafni Reykjavíkur.