14. nóvember 2009 |
Gömul hús og gamlir bátar heyri undir sama sjóð
Gera verður betur í því að varðveita gömul mannvirki og handverk og miðla til ungra kynslóða. Þetta segir Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður í samtali við Ríkisútvarpið. Hún vill að verndun húsa og báta heyri undir sama sjóðinn. Margrét segir að síðustu ár hafi verið gert átak í að bjarga bátum, meðal annars með samvinnu sjóminjasafna. Mennta- og menningarmálaráðuneytið er að endurskoða lög um söfn, minjavernd og menningararf og meðal annars hefur verið rætt um bátafriðunarsjóð.
Ungur maður, Jón Ragnar Daðason, sagði í útvarpsfréttum að til þyrfti að vera sérstakur bátafriðunarsjóður. Hann hefur bjargað nokkrum bátum frá eyðileggingu ásamt félögum sínum í bátavinafélaginu Súðbyrðingi og gera þeir þá upp eftir gömlum aðferðum.
Ríkisendurskoðun birti skýrslu í vor um muna- og minjasöfn og meðferð og nýtingu á ríkisfé. Ríkisendurskoðun gagnrýndi í skýrslunni skipulag styrkveitinga. Til dæmis úthlutar fagskipað safnaráð 15% fjárins en þingmenn í fjárlaganefnd Alþingis úthluta 52%.