Gósenland fugla og ferðafólks á Reykhólasvæðinu
Veðrið og sólskinið hafa leikið við Breiðfirðinga það sem af er þessu sumri líkt og oftast endranær. Frá sunnudeginum fyrir tæpum tveimur vikum hefur hitinn á mælistöð Veðurstofunnar á Reykhólum farið fimm daga yfir 20 stig. Í dag fór hitinn síðdegis í 20,8 stig og sólin skein glatt allan daginn. Reykhólar eru heila 14 km (!) frá þjóðveginum milli landshluta og þess vegna eru ótalmargir sem hafa aldrei brugðið sér þennan litla afleggjara út á Reykjanes við Breiðafjörð og ófáir vita alls ekki að hér á Reykhólum er myndarlegt þorp. Meðfylgjandi myndir frá tjaldstæðinu við Grettislaug á Reykhólum tók Jón Þór Kjartansson seint í gærkvöldi þegar skýjahula næturinnar hafði tekið vaktina af heiðríkju dagsins. Þeir sem hingað koma einu sinni koma aftur og aftur, ár eftir ár eftir ár.
Hvergi á landinu er fuglalíf fjölskrúðugra en á Reykhólasvæðinu. Engin tegund yfirgnæfir aðra, líkt og gerist við sérstakar aðstæður eins og í fuglabjörgunum miklu, heldur er hér sitt lítið af hverju, ef svo má segja. Ástæðan er einstaklega fjölbreytt lífríki þar sem ótalmargar ólíkar tegundir finna hver sitt kjörlendi. Hvergi á landinu er útfiri eins mikið og við innanverðan Breiðafjörð og lífríkið á leirunum sem upp koma á fjöru er mörgum fuglategundum gósenland. Eyjar, hólmar og sker á Breiðafirði eru nánast óteljandi. Minna má á, að mestur hluti Breiðafjarðareyja og þar með sjálf Flatey eru í Reykhólahreppi.
Á svæðinu neðan við Reykhóla er bæði víðáttumikið mólendi og mýrlendi og tjarnir og vötn þar sem ýmsar fáséðar fuglategundir halda sig. Reykjanesið sjálft þar fyrir ofan er síðan að mestu fjalllendi með hömrum og hálendissvæði þar sem enn aðrar tegundir verpa.
Frá tjaldsvæðinu við Grettislaug á Reykhólum, þar sem er hin besta aðstaða fyrir ekki aðeins tjöld heldur einnig húsbíla, tjaldvagna og annað slíkt, er nokkur hundruð metra göngustígur niður að Langavatni þar sem fólk getur setið í fuglaskoðunarhúsi og virt fyrir sér lífið á vatninu án þess að trufla fuglana. Svo er hægt að ganga daglangt og náttlangt um þetta svæði og önnur í héraðinu og virða fyrir sér bæði fugla og aðrar dásemdir náttúrunnar.
Sem betur fer, eins og einhver sagði, er alls ekkert kraðak af ferðafólki á göngu um þessa náttúrudýrð. Ekki síst þýskir ferðamenn, en þeir eru langtíðastir erlendra gesta hér, sem leggja af stað fótgangandi að morgni, eru uppnumdir af hrifningu þegar þeir koma síðdegis til baka - og hafa ekki hitt nokkra einustu manneskju á þessari undursamlegu náttúruskoðunargöngu. Það finnst þeim eiginlega allra merkilegast!
Var einhver að tala um best geymdu leyndarmálin hérlendis?
Sjá einnig:
Bakkabúi, mnudagur 13 jl kl: 15:09
Hvar eru tjöldin! Ekki gaman að troða sér niður með tjaldið á bílastæðinu