Grasleysi og fuglafellir en tófan feit undan vetri
Af Barðaströnd. - Voru nálega allir menn komnir í heyþrot í vor og leit út fyrir stórfel(l)dan felli og bændur voru sem á nálum, en þá kom batinn með maí og var sá mánuður allur góður. Hann bjargaði hundruðum manna frá armæðu. Júní var aftur með kulda og úrkomum og því er búist við að grassprettan verði þriðjungi til helmingi rýrari en í fyrra á túnum og harðvelli ...
Þetta er úr frétt í dagblaðinu Fréttum í Reykjavík þennan dag (2. júlí) árið 1918. Veturinn 1917-18 er jafnan nefndur frostaveturinn mikli.
Þarna kemur einnig fram, að æðarfugl, skarfar og aðrir fuglar, svo sem álftir, tjaldar og rjúpur, hafi fallið og farist í hrönnum. Refurinn hafi hins vegar komið feitur undan vetri.
Sagt er frá fundahöldum um alla sýsluna (sjá hér fyrir neðan) til hvatningar um gætilegan ásetning, góða heyöflun og önnur bjargráð: Voðinn sem stóð fyrir dyrum í vor hefur gagntekið hugi manna.
Í vikublaðinu Fram á Siglufirði sagði í frétt þá um veturinn (19. janúar 1918): Breiðifjörður er ennfremur svo lagður, að póstur var fluttur á ísi frá Barðaströnd til Flatey(j)ar.
Ábendingar varðandi fréttirnar gömlu sem snerta þennan hluta landsins og skrif Hreiðars E. Geirdal um „Reykhóla á Barðaströnd“ (sjá hér neðar) komu frá Jónasi Ragnarssyni (Dagar Íslands), sem hér hefur áður verið getið.
Athugasemdir varðandi Barðaströnd og fleira:
Barðaströnd heitir strandlengjan og sveitin milli Vatnsfjarðar og Sigluneshlíða vestarlega við norðanverðan Breiðafjörð. Hún er að öllu leyti innan marka Vestur-Barðastrandarsýslu. Hins vegar dregur öll Barðastrandarsýsla (Austur-Barðastrandarsýsla og Vestur-Barðastrandarsýsla) nafn af henni, líkt og Skaftafellssýsla er kennd við Skaftafell í Öræfum, Húnavatnssýsla við Húnavatn í Austur-Húnavatnssýslu o.s.frv.
Mjög lengi hefur heitið Barðaströnd iðulega verið notað um miklu stærra svæði en hana sjálfa og jafnvel um gervalla Barðastrandarsýslu (bæði Vestur- og Austur-Barðastrandarsýslu). Hefur ýmsum þótt heldur hvimleitt þegar talað er t.d. um Reykhóla á Barðaströnd (sjá kort á mynd nr. 3). Um það skrifaði t.d. Hreiðar E. Geirdal greinarstúf í Velvakanda Morgunblaðsins fyrir hálfri öld eða 16. ágúst 1962 (mynd nr. 4 - smellið á myndirnar að venju til að stækka þær).
Hins vegar hefur löngum verið talað um fólkið í Austur-Barðastrandarsýslu sem Barðstrendinga og þykir víst fáum óeðlilegt. Þar er augljóslega vísað til sýslunnar næsta víðlendu sem kennd er við hina næsta smáu Barðaströnd í vestursýslunni. Nærtækt dæmi er heiti Barðstrendingafélagsins, sem er ekkert unglamb lengur.
Á sama hátt var Múlasýsla (Múlasýslur báðar) kennd við Þingmúla (Múla) í Skriðdal og Þingeyjarsýsla (Þingeyjarsýslur báðar) við Þingey í Skjálfandafljóti. Líklega finnst engum neitt athugavert við það að kalla mann Þingeying enda þótt hann eigi ekki heima á þessum hólma í miðju fljótinu eða sé ættaður þaðan, enda hefur aldrei verið þar búseta. Í mörgum tilvikum eru sýslurnar kenndar til þeirra staða þar sem héraðsþingin voru haldin forðum daga.
Hvað örnefni varðar eru stundum ýmsar hliðar að skoða og hefur þá iðulega hver til síns máls nokkuð.
Í fréttunum bráðum aldargömlu sem hér er fjallað um (myndir nr. 1 og 2) má telja næsta víst, að þar sé átt við mun stærra svæði en hina formlegu Barðaströnd milli Vatnsfjarðar og Sigluneshlíða og þá líklega fyrst og fremst austursýsluna.
Hér má einnig nefna texta við dægurlag sem var mjög vinsælt á sjötta áratug síðustu aldar. Jenni Jóns samdi lagið og orti textann en Alfreð Clausen söng inn á plötu. Hér er um að ræða eins konar „þjóðsöng“ Bjarkalundar í Reykhólasveit, sem var kominn til sögunnar fyrir fáum árum þegar lagið kom út. Eitt erindið í textanum er á þessa leið:
Bjart er nú um Bjarka(r)lund,
blessuð sólin skín á grund.
Ljósið vekur líf og önd.
Við lofum Barðaströnd.
Hvort rétt eða réttara er að segja og rita Bjarka-lundur eða Bjarkar-lundur væri síðan efni í heilan fyrirlestur, ef ekki tvo.
Eitt enn: Velvakandi sjálfur ritar neðanmálsgrein við greinarstúf Hreiðars E. Geirdal og skrifar þar Barðastranda-sýsla en ekki Barðastrandar-sýsla. Þetta sést iðulega og væri auðvitað rétt ef ekki væri ein Barðaströnd sem sýslan er kennd við, heldur fleiri. Sá sem þetta ritar lenti fyrir mörgum árum í þrasi við mann sem hékk á því eins og hundur á roði að rita skyldi Barðastranda-sýsla vegna þess að sýslan skiptist í Austur-Barðastrandarsýslu og Vestur-Barðastrandarsýslu ...
- hþm