„Grenjavinnsla og refaveiðar eru í rúst“
Í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár er ekki gert ráð fyrir neinni fjárveitingu til refaveiða. Hins vegar er gert ráð fyrir því að 20,2 milljónir fari í endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna minkaveiða. „Ríkið dró sig einhliða út úr þessu,“ segir Snorri H. Jóhannesson, bóndi í Borgarfirði og formaður Bjarmalands, félags atvinnuveiðimanna á ref og mink, í samtali við Morgunblaðið í dag. Hann segir þetta þriðja árið sem ríkið leggi ekkert til refaveiða.
„Grenjavinnsla og refaveiðar eru í rúst. Áratugagamalt skipulag er að mestu hrunið og hæfileikamenn sem voru í þessu eru farnir frá. Þar með tapast upplýsingar sem eru nauðsynlegar,“ sagði Snorri.
Hann segir að refastofninn hafi tífaldast á undanförnum árum og áhrifin leyni sér ekki. „Það komu bitnar kindur af fjalli nú í haust og þær hafa líka verið drepnar, enda hefur tófan ekkert annað að éta hér. Hér var ekki hlaðborð í sköflum og enginn fugl.“
Snorri segir að oft sé haft samband við hann vegna þess að fólk sjái tófur og eins frétti hann gjarnan ef fólk sér tófur. „Það er orðið algeng sýn og mikil breyting frá því sem var í þeim efnum,“ sagði hann. Tófan fari nú oft um sumarbústaðalönd og komi í fé heima við bæi, en áður hafi það verið.