Tenglar

20. júní 2015 |

Grettir Ásmundarson snýr aftur á Reykjahóla

Elfar Logi í hlutverki Grettis. Ljósm. Ágúst G. Atlason.
Elfar Logi í hlutverki Grettis. Ljósm. Ágúst G. Atlason.

Grettir hinn sterki Ásmundarson frá Bjargi í Miðfirði kemur á fornar slóðir á Reykhólum í kvöld, laugardagskvöld, nánar tiltekið við Grettislaug, þar sem einleikurinn Grettir byrjar stundvíslega kl. 21.30. Hægt verður að skella sér í pottinn eða sitja á bakkanum og horfa á. Ef veður verður með leiðindi (reyndar er spáin prýðileg) færist sýningin upp á Báta- og hlunnindasýningu. Aldurstakmark er 14 ár og aðgangseyrir kr. 3.000.

 

Einleikurinn Grettir er nýtt verk úr smiðju Kómedíuleikhússins. Lengd sýningarinnar er 45 mínútur. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson, leikmynd og brúður gerði Marsibil G. Kristjánsdóttir, tónlistin er í höndum Guðmundar Hjaltasonar en leikstjóri er Víkingur Kristjánsson. Allt eru þetta Vestfirðingar.

 

Grettir var ódæll í uppvexti sínum, fátalaður og óþýður og bellinn og ósvífinn bæði í orðum og tiltektum. Hann var afrenndur að afli. Löngum átti hann í útistöðum og mannvígum og var ógæfumaður. Viðureignarinnar við hinn sænskættaða draug Glám beið hann aldrei bætur andlega. Grettir var útlægur ger og loks drepinn í Drangey á Skagafirði.

 

27. kafli Grettis sögu hefst á þessa leið:

 

„Þorgils bjó þá á Reykjahólum. Hann var son Ara Mássonar, Atlasonar hins rauða, Úlfssonar hins skjálga er nam Reykjanes [og bjó á Miðjanesi]. Móðir Þorgils Arasonar var Þorgerður dóttir Álfs úr Dölum. Önnur dóttir Álfs var Þórelfur, móðir Þorgeirs Hávarssonar. Átti Þorgeir þar traust mikið fyrir frændsemis sakir því að Þorgils var mestur höfðingi í Vestfirðingafjórðungi. Hann var svo mikill þegnskaparmaður að hann gaf hverjum frjálsum manni mat svo lengi sem þiggja vildi. Varð af þessu jafnan fjölmennt á Reykjahólum.“

 

Í 49. kafla Grettis sögu greinir frá því þegar hann lenti sem oftar í vandræðum út af mannvígum. Hann dvaldist í Ljárskógum í Dölum hjá Þorsteini Kuggasyni og ætluðu menn að fara að honum þar og drepa hann. Þorsteinn hafði spurn af þessu og ráðlagði Gretti að fara inn í Sælingsdalstungu til höfðingjans Snorra goða og leita ásjár hans. En ef Snorri yrði ekki við því, þá skyldi Grettir fara vestur á Reykjahóla til Þorgils Arasonar „og mun hann við þér taka í vetur. Hafst við í Vestfjörðum þar til sem sjötlast þessi málaferli.“

 

Skemmst er frá því að segja, að Snorri goði vildi ekki taka við Gretti. Í næsta kafla segir síðan frá komu Grettis á Reykhóla og veturvist hans þar. Þann vetur dvöldust þar einnig þeir fóstbræður og kappar og vandræðagemlingar Þorgeir Hávarsson og Þormóður Kolbrúnarskáld, báðir upprunnir við Ísafjarðardjúp, og segir þarna frá ýmsum viðskiptum Grettis og þeirra og sumum ekki vinsamlegum.

 

Greint er frá för þeirra þriggja út í Ólafseyjar að sækja naut sem þar hafði gengið um sumarið. Einkum var róðurinn heim sögulegur, svo og lendingin við Hvalshaushólm og flutningur uxans þaðan til bæjar. Þeir fóstbræður tóku að sér að setja skipið og settu það með öllum sjónum sem í því var „og jöklinum, en það var mjög sýlt.“ Grettir tók hins vegar að sér að fara heim með uxann, sem var feitur og stirður og mæddist.

 

„En þá er hann kom neðan hjá Tittlingsstöðum þraut uxann gönguna. Þeir fóstbræður gengu til húss því að hvorugir vildu veita öðrum að sínu hlutverki. Þorgils spyr að Gretti en þeir sögðu hvar þeir höfðu skilið. Hann sendi þá menn á móti honum og er þeir komu ofan undir Hellishóla sáu þeir hvar maður fór í móti þeim og hafði naut á baki og var þar kominn Grettir og bar þá uxann. Undruðust þá allir hversu mikið hann gat orkað. Lék Þorgeiri næsta öfund á um afl Grettis.“

 

Þorgeiri lék hugur á að drepa Gretti, en Þormóði sem var skynsamari maður og mildari leist það ekki gæfuleg ráðagjörð. Þorgeir réðst samt að Gretti með öxi þegar hann var að koma úr lauginni, en Grettir hljóp undir hann og færði hann niður og var það allmikið fall.

 

„Þormóður þreif þá í fætur Gretti og ætlaði að draga hann ofan af Þorgeiri og fékk ekki að gert. Hann var gyrður saxi og ætlaði að bregða. Þá kom Þorgils bóndi að og bað þá vera spaka og fást ekki við Gretti. Þeir gerðu svo og sneru þessu í gaman. Ekki áttust þeir fleira við svo að getið sé. Þótti mönnum Þorgils mikla gæfu til hafa borið að stilla slíka ofstopamenn. En er vora tók fóru þeir á burt allir,“ segir í sögu Grettis.

 

Fóstbræðra saga greinir lítillega frá þessum vetri á Reykhólum fyrir hartnær þúsund árum (1016-17, eftir því sem næst verður komist). Þar segir einungis:

 

„Segja menn að þeir hafi verið allir þrír á einni vist á Reykjahólum, Þorgeir, Þormóður og Grettir hinn sterki Ásmundsson, og hafi verið nær um afl þeirra tveggja og Grettis eins.“

 

Sjá einnig:

Stefnt að gerð minnismerkis um Gretti Ásmundarson

Grettis saga (Netútgáfan)

Kómedíuleikhúsið á Ísafirði

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Aprl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30