Tenglar

15. maí 2011 |

Grettir BA 39 kominn heim og leysir Karlsey af hólmi

Þorgeir, Hlynur, Gylfi, Örn Snævar, Atli, Björn, Leonard og Ingibergur. Smellið til að stækka. Sjá nánar í meginmáli.
Þorgeir, Hlynur, Gylfi, Örn Snævar, Atli, Björn, Leonard og Ingibergur. Smellið til að stækka. Sjá nánar í meginmáli.
1 af 3
Grettir BA 39, hið nýja flutningaskip Þörungaverksmiðjunnar hf., lagðist fánum prýddur að bryggju í heimahöfn á Reykhólum rétt um klukkan sex í kvöld. Skipið leysir af hólmi Karlseyna gömlu sem þjónað hefur vel og mjög lengi. Fjöldi fólks var við Reykhólahöfn að fagna komu Grettis. Skipið var í margvíslegum endurbótum, yfirhalningu og reynslusiglingum hjá Slippnum á Akureyri og tók sú vinna öllu lengri tíma en áætlað var. Skipstjóri á leiðinni frá Akureyri var Örn Snævar Sveinsson en stýrimaður í ferðinni var Gylfi Helgason, sem mjög lengi var skipstjóri á Karlsey allt þangað til hann fór á eftirlaun og Örn Snævar tók við fyrir tveimur árum eða svo. Áður var Örn Snævar kominn á Karlsey sem stýrimaður.

 

Aðspurður um ferðina að norðan segir Örn Snævar skipstjóri að hún hafi gengið ljómandi vel. „Veðrið var þokkalegt megnið af leiðinni“, segir hann. „Við vorum aðeins lengur á leiðinni en gert var ráð fyrir. Yst í Eyjafirðinum fengum við norðankalda. Frá Straumnesi og suður fyrir Djúp fengum við mótstraum. Svo fengum við reyndar meðstraum frá Blakk og suður fyrir Látrabjarg.“

 

Örn Snævar segir að skipið hafi reynst prýðilega á leiðinni. „Þó að veðrið væri að mestu þokkalegt fengum við leiðindakafla í Látraröstinni, fengum þar suðurfall og suðvestanáttina beint á móti, þannig að við lentum í dálitlum sjógangi. En skipið reyndist mjög vel.“

 

Í siglingu sem þessari er skylt að hafa sérstakan stýrimann. „Ég leitaði til Gylfa Helgasonar og hann sló til“, segir Örn Snævar.

 

Atli Georg Árnason, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar hf. á Reykhólum, var að vonum glaðbeittur við komu skipsins og færði áhöfninni tertu.

 

„Verksmiðjan stendur á merkum tímamótum með komu okkar glæsilega skips sem nú leysir núverandi skip af hólmi“, sagði Atli Georg. „Verksmiðjunni hefur vegnað einstaklega vel undanfarin rekstrarár vegna framleiðsluaukningar, sem þakka má okkar góða starfsfólki. Vegna síaukinnar eftirspurnar eftir okkar lífrænt vottaða hráefni opnar nýja skipið enn meiri möguleika á aukinni hráefnisöflun og í kjölfarið aukinni framleiðslugetu, þar sem væntingar eru að skipið geti tvöfaldað afkastagetu okkar núverandi skips.“

 

Á fyrstu mynd með þessari frétt eru, talið frá vinstri:

 

Þorgeir Már Samúelsson framleiðslustjóri, Hlynur Stefánsson viðhaldsformaður, Gylfi Helgason stýrimaður, Örn Snævar Sveinsson skipstjóri, Atli Georg Árnason framkvæmdastjóri, Björn Samúelsson vélstjóri, Leonard Jóhannsson vélavörður og Ingibergur Vilhjálmsson matsveinn.

 

Fjölda mynda frá komu Grettis til Reykhóla má sjá undir Ljósmyndir > Myndasyrpur > Grettir kemur 15.05.2011. Þar eru einnig myndir sem Þorgeir Baldursson ljósmyndari á Akureyri tók áður en skipið fór þaðan. Hér má skoða skipa- og sjávarútvegssíðu Þorgeirs.

 

Sjá einnig:

Nafnið á nýja skipið valið - Grettir skal það heita

Kaflinn í Grettis sögu þar sem segir af frægri veturvist hans á Reykhólum

 

Athugasemdir

Málfríður Vilbergsdóttir, mnudagur 16 ma kl: 08:03

Til ykkar allra hjá Þörungarvinnslunni og annara velunnara verksmiðjunnar innilega til hamingju með glæsilegan Grettir. Megi ykkur ávallt farnast vel við ykkar störf.

Virðingarfyllst,
Málfríður á Hríshóli

Bergsveinn G Reynisson, mnudagur 16 ma kl: 08:05

Glæsilegt skip. Til hamingju.

Solla Magg, mnudagur 16 ma kl: 08:23

Hjartanlegar hamingjuóskir með nýja skipið ..

Halldóra Játvarðardóttir,- Lóa-, mnudagur 16 ma kl: 14:01

Ég óska Þörungaverksmiðjunni, starfsfólki hennar, og öllum íbúum Reykhólahrepps hjartanlega til hamingju með þetta nýja skip= Gretti BA 39. Megi Grettir verða öllu og öllum til hagsbóta í sveitarfélaginu um ókomna tíð.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31