Grettislaug á Reykhólum lokað endanlega?
Vegna manneklu verður að breyta auglýstum tíma eftir 16. ágúst (næsta sunnudag) segir Harpa Eiríksdóttir, fráfarandi forstöðumaður Grettislaugar á Reykhólum. Frá og með mánudegi og til föstudagsins 28. ágúst verður aðeins opið mánudag til föstudags kl. 18 til 21 og helgina 22.-23. ágúst verður laugin opin kl. 12-21. „Eins og staðan er í dag er óvíst hvort laugin verður opin eftir 28. ágúst.“
Harpa hvetur fólk sem gæti tekið að sér umsjón með lauginni til að hafa samband. En, eins og núna horfir verður laugin lokuð a.m.k. fram á næsta sumar, þ.e. ef þá fæst á annað borð nokkur manneskja til að annast laugina. Margoft er búið að auglýsa eftir fólki í allt sumar en án árangurs.
Grettislaug er 25 metra laug og hefur henni og laugarhúsinu hefur verið haldið mjög vel við alla tíð. Þannig hefur hún verið lokuð í nokkrar vikur á hverju vori vegna alls kyns viðhalds. Við laugina eru nánast nýir heitir pottar og sólbaðssvæði og rétt hjá er svæði fyrir tjöld og tjaldvagna og húsbíla með allri þjónustu, sem hefur verið á höndum sundlaugarvarða. Verði Grettislaug lokað endanlega er slíkt væntanlega líka úr sögunni.
Indiana Ólafsdóttir, laugardagur 15 gst kl: 16:57
Verður hún bara aldrei opnuð meir?