Gróður í sókn á sunnanverðum Vestfjörðum
Greining á gögnum frá gervitunglum NOAA í Bandaríkjunum sýnir að gróður hefur aukist hér á landi á undanförnum árum. Tunglin greina m.a. gróðurstuðul, sem er mælikvarði á blaðgrænu og grósku á yfirborði jarðar. Gögn frá tunglunum ná aftur til ársins 1982 og hafa þau verið notuð til að rannsaka langtímabreytingar á gróðri víða um lönd. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur unnið að greiningu á gögnum fyrir Ísland fyrir tímabilið 1982–2010. Fyrstu niðurstöður sýna að gróður hefur verið í sókn á Íslandi eins og margir hafa talið sig sjá merki um.
Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Því dekkri sem grænu reitirnir á kortinu eru, því meiri er gróðuraukningin (smellið á myndina til að stækka og sjá skýringarnar). Áberandi eru dökku reitirnir á sunnanverðum Vestfjarðakjálkanum.
Við greininguna voru notuð gögn þar sem landinu öllu er skipt upp í 893 reiti, sem hver er 154 ferkílómetrar (12,4 x 12,4 km) að flatarmáli. Út frá gögnunum var unnið kort af landinu, sem sýnir reiknaða breytingu á lífmassa gróðurs. Kortið sýnir að gróðurbreytingar eru mjög ólíkar eftir landshlutum.
Líklegt er að aukningu gróðurs á landinu megi rekja til minnkandi búfjárbeitar, hlýnandi veðurfars og aukinnar landgræðslu og skógræktar. Sennilegt er að fyrstu tveir þættirnir vegi þar þyngst.
► Ársskýrsla Náttúrufræðistofnunar Íslands 2011