Gróðursetning og grillveisla á Hólabæ
Börnin og starfsfólkið á leikskólanum Hólabæ á Reykhólum ásamt foreldrafélagi skólans tóku í gær höndum saman og gróðursettu trjáplöntur á lóðarmörkum og efndu síðan til grillveislu í góða veðrinu. Óhætt er að segja að mannskapurinn við gróðursetninguna hafi verið af öllum stærðum líkt og verkfærin, eins og sjá má í myndasyrpu sem komin er inn á vefinn - smellið á Ljósmyndir í valmyndinni til vinstri. Hjólbörurnar voru þó stundum vel við vöxt, eins og þar má sjá.
Með austurhlið lóðarinnar á Hólabæ var gróðursett birki sem á að mynda skjólbelti en að vestanverðu voru reyniviðarplöntur settar niður. „Við vorum lengi búin að ætla okkur að setja niður trjáplöntur og ákváðum að gera það núna í tengslum við alþjóðlega barnadaginn sem var síðasta sunnudag. Gróðursetninguna helguðum við þess vegna börnunum í Reykhólahreppi. Við reynum að ala með börnunum vitund og umhyggju fyrir náttúrunni og gróðursetningin er þáttur í því. Síðan er ætlunin að gera hér alltaf eitthvað sérstakt í tilefni af barnadeginum á hverju ári", segir Björg Karlsdóttir, leikskólastjóri á Hólabæ.
Mjög góð mæting var af hálfu foreldrafélagsins og má segja að margar hendur hafi unnið létt verk. Að loknum garðyrkjustörfum voru pylsur grillaðar og sitthvað fleira gott var á boðstólum fyrir börn og fullorðna. Verslunin Hólakaup á Reykhólum gaf öllum börnunum pakka með bakpoka og svolitlu sælgæti. „Okkur hefur einmitt vantað svona bakpoka þegar við förum í gönguferðir", segir Björg.
Börnin á Hólabæ eru átján og verður það að víst að teljast gott í ekki stærra byggðarlagi.
Á myndinni hér fyrir ofan er bæði mokað og ekið með ólíkum tækjakosti. Annars vegar skurðgrafa og vörubíll handan girðingarinnar, hins vegar lítil handskófla og smágervar hjólbörur.
Allt hefur sinn stað og sinn tíma.