Tenglar

28. júní 2015 |

Gróðursetningin á Reykhólum og molar af ýmsu tagi

Frá gróðursetningu birkitrjánna á Reykhólum. Myndirnar tók hþm.
Frá gróðursetningu birkitrjánna á Reykhólum. Myndirnar tók hþm.
1 af 12

Birkitrén hennar Vigdísar Finnbogadóttur voru gróðursett í blíðunni í Hvanngarðabrekkunni á Reykhólum í gærkvöldi. Þetta eru þrjú tré af íslenska yrkinu sem nefnt hefur verið Embla. Þrjú ungmenni önnuðust verkið, þau Bjarni Ágústsson og Birna Björt Hjaltadóttir á Reykhólum og Ketill Ingi Guðmundsson á Litlu-Grund. Viðstaddir voru fulltrúar sveitarfélagsins, sem og stjórnarfólk í Skógræktarfélaginu Björk og aðrir bæði ungir (sumir mjög ungir) og gamlir.

 

Ungmennin voru fulltrúar kynjanna ásamt því að vera fulltrúar framtíðar. Myndirnar sem hér fylgja voru teknar við þetta tækifæri og ættu að skýra sig að mestu sjálfar.

 

Gróðursetning trjáa fór fram með sama hætti um land allt í gær í virðingarskyni við Vigdísi Finnbogadóttur og þess minnst, að 35 ár eru liðin frá því að hún var kjörin forseti Íslands. Hún var fyrsta konan í heiminum sem kosin var þjóðhöfðingi í lýðræðislegum kosningum. Skógrækt er meðal margra af hugðarefnum Vigdísar og sýndi hún það víða í verki þar sem hún fór á embættistíð sinni og gróðursetti marga trjáplöntuna, jafnan þrjár á hverjum stað. Sjá t.d. hér: Vigdís forseti gróðursetur tré í Reykhólasveit.

 

Trén sem gróðursett voru í gær eru íslenskt yrki af þjóðlegustu trjátegund Íslands, birkinu, yrkið Embla eða emblubirki. Lötum umsjónarmanni þessa vefjar þótti skilvirkara og fljótlegra að hafa samband við sérfræðinga heldur en að leita á netinu að fróðleik um þetta yrki. Fyrir barðinu urðu tveir af skólabræðrum hans og samstúdentum ekki alls fyrir löngu, eða fyrir 49 árum, þeir dr. Ágúst H. Bjarnason plöntuvistfræðingur (sonur Hákonar Bjarnasonar fyrrum skógræktarstjóra) og Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri (sonur Runólfs Sveinssonar fyrrum sandgræðslustjóra). Þeir brugðust ljúflega við. Ágúst skrifaði í snarheitum í þessu skyni pistilkorn sem fer hér á eftir, en Sveinn kvaddi til son sinn, dr. Sæmund Sveinsson plöntuerfðafræðing. sem sendi umsvifalaust nokkra gagnlega tengla, sem finna má hér fyrir neðan.

 

Eins og hér sé ekki nóg komið af persónulegum málum umsjónarmanns þessa vefjar, þá bætir hann hér með gráu ofan á svart með því að nefna, að á nýliðnum vetri voru 50 ár liðin frá því að Vigdís Finnbogadóttir var ekki aðeins einn af ágætum kennurum hans heldur líka umsjónarkennari bekkjarins hans. Síðar þegar Vigdís var orðin forseti sýndi hún þessum gamla nemanda sínum þann heiður að veita honum gríðarmikið viðtal fyrir jólablað nokkurt.

 

 

Pistillinn

sem dr. Ágúst H. Bjarnason sendi Reykhólavefnum

 

Íslenzka birkið er samkvæmt beztu manna yfirsýn Betula pubescent á latínu. Menn hafa lengi velt vöngum yfir því, vegna þess að það er afar margbreytilegt. Sumir hafa reynt að búta það niður í smærri tegundir og hefur það verið kallað öllum þessum nöfnum: B. alba, B. callosa, B. carpatica, B. concinna, B. coriacea, B. cerepanovii, B. odorata, og B. tortuosa. Í svip man eg ekki fleiri nöfn, en svo hafa menn líka skipt því í ýmis afbrigði, sem eg hirði ekki að nefna.

 

Á erlendum málum heitir okkar birki Dun-Birk (danska), hieskoivu eða tunturikoivu (finnska), vanlig björk (norska), glasbjörk (sænska); á ensku eru nöfnin fjölmörg: downy birch, silver birch, moor birch, European white birch og hairy birch; Moor-Birke á þýzku.

 

Þar sem íslenzka birkið er mjög breytilegt hafa menn reynt að velja út eitt fagurskapað eintak með ljósan börk. Síðan framleiða menn margar slíkar plöntur á kynlausan hátt og þá breytast ekki erfðaeiginleikar. Einn slíkan stofn hafa menn kallað ‚Embla‘. – Þetta er svo kallað yrki eða cultvar. (cv.) (ræktað afbrigði) og hægt er að fá þau skráð á alþjóða vísu (International Code of Nomenclature for Cultivated Plants). Þetta yrkisnafn á því alls ekki að þýða á önnur tungumál. Rétt heiti á þessu yrki er því Betula pubescens Ehrh. ‚Embla‘. – Ehrh. er skammstöfun á nafni þess manns, sem lýsti þessu birki fyrstur á löglegan hátt og hann hét Jacob Friedrich Ehrhart (1742-1795); hann kallast nafnhöfundur en það má sleppa skammstöfuninni.

 

Hér er bloggsíða sem Ágúst H. Bjarnason heldur úti um og flóru og gróður (og reyndar sitthvað annað fróðlegt og skemmtilegt).

 

 

Tilvísanirnar

sem dr. Sæmundur Sveinsson sendi Reykhólavefnum

 

Í grein í Skógræktarritinu árið 1995 eftir dr. Þorstein Tómasson plöntuerfðafræðing kemur fram, að þá hafi undanfarna tvo áratugi verið unnið að erfðarannsóknum og kynbótum á íslensku birki til þess að bæta vaxtarlag og vaxtarhraða þess birkis sem gróðursett er í íslenskri skógrækt og garðrækt. Á grundvelli forrannsókna og athugana hafi vinna við kynbótaverkefni byrjað í ársbyrjun 1987, eða núna fyrir bráðum þremur áratugum. Þar segir einnig meðal annars:

  • Birki er ríkjandi trjátegund á Íslandi og talið er að birkiskógar hafi þakið um fjórðung landsins við landnám, en núverandi útbreiðsla skóganna er nálægt einum hundraðshluta. Frá því að skógrækt hófst hér á landi hefur birki verið plantað og í byrjun var lögð mikil áhersla á notkun tegundarinnar [...]. Eftir síðari heimsstyrjöld óx áhuginn á innfluttum tegundum, einkum barrtrjám, sem hafa verið ríkjandi í gróðursetningum síðan.
  • Barrtré voru að mestu gróðursett í birkiskóga eða birkikjarrlendi og birkið þannig notað sem skjól fyrir hinar innfluttu tegundir. Á þessu varð mikil breyting með landgræðsluskógaátakinu sem hófst árið 1990. Þar er megináherslan lögð á gróðursetningu í örfoka eða gróðurvana land. Birki er frumbyggi í íslenskri náttúru og nýtist því vel í þessari ræktun.

 

Greinina í Skógræktarritinu má sjá hér í heild:

Embla - kynbætt birki fyrir íslenska skógrækt

 

Fleira fróðlegt sem kom frá Sæmundi:

 

Birkið sem stendur sig best - Embla, kynbætt fyrir íslenskar aðstæður

- Morgunblaðið 21. apríl 2006 (blaðauki), ein síða pdf.

 

Bestu birkikvæmin

- Bændablaðið 21. febrúar 2013, ein síða pdf.

 

 

Hér skal að lokum hnýtt við nokkrum setningum sem umsjónarmaður skrifaði hér á vefinn þegar gróðursetningin á Reykhólum í gær var boðuð:

  • Samkvæmt norrænni goðafræði fornri voru Askur og Embla fyrsta fólk í heimi, tilsvarandi Adam og Evu í öðrum fræðum. Þar komu við sögu þeir Borssynir þrír Óðinn, Vilji og Véi, sem fundu tvö tré rekin á sjávarströnd. Óðinn gaf þeim anda og líf, Vilji gaf þeim vit og hreyfingu en Véi gaf þeim ásjónu og skilningarvit. Síðan gáfu þeir þeim klæði og nöfn, karlinum nafnið Askur og konunni nafnið Embla. Ólst síðan af þeim mannkynið, eins og segir á afgömlum bókum íslenskum.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31