Tenglar

23. mars 2011 |

Guðbjört Lóa er Íþróttamaður ársins 2010 hjá UDN

Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir.
Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir.
1 af 3
Glímukappinn Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir á Erpsstöðum í Dölum var útnefnd Íþróttamaður ársins 2010 hjá Ungmennasambandi Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN) á ársþingi þess sem haldið var á Reykhólum í fyrrakvöld. Þetta er annað árið í röð sem hún hlýtur titilinn. Afar mjótt var á munum í kjörinu. Guðbjört Lóa fékk 42 stig en Sturlaugur Eyjólfsson fjallgönguþjarkur á Brunná í Saurbæ fékk 41 stig. Hvað aldur varðar er öllu meira bil á milli þeirra eða liðlega 53 ár.

 

Á síðasta ári varð Guðbjört Lóa m.a. tvöfaldur Íslandsmeistari í glímu, bæði í opnum flokki kvenna og +65 kg flokki, og Landsmótsmeistari í flokki stúlkna 17-18 ára. Þess má geta til viðbótar, að í Bikarglímu Íslands í síðasta mánuði vann Guðbjört Lóa bæði opna flokkinn og +65 kg flokkinn.

 

Guðbjört Lóa er á átjánda ári og stundar nám í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Hún hafði ekki tök á því að koma á þingið á Reykhólum. Þess vegna er ætlunin að afhenda henni farandbikarinn og eignargrip til staðfestingar nafnbótinni á Jörfagleði Dalamanna um miðjan næsta mánuð.

 

Sturlaugur Eyjólfsson á Brunná, sem hlaut annað sætið í kjöri Íþróttamanns ársins 2010, varð sjötíu og eins árs í síðasta mánuði. Greinargerðin sem fylgdi tilnefningu hans er á þessa leið:

 

„Sturlaugur Eyjólfsson varð 70 ára þann 14. janúar 2010. Á afmælisdeginum sínum ákvað hann að ganga á 70 fjöll á árinu. Hann byrjaði ekki fyrr en í lok mars á fjallgöngunum sínum og lauk þeim í byrjun október. Alls gekk hann á 100 fjöll á þessum tíma. Ferðaðist hann vítt og breitt um landið til að mæta fjöllum sínum. Meðal fjalla var Hvannadalshnjúkur og 24 tindar í Glerárhringnum svokallaða en þá er gengið á 24 fjöll á 24 tímum sleitulaust. Sturlaugur lauk Glerárhringnum á rúmum 24 klukkustundum og er langelstur þeirra sem lokið hefur þeirri göngu, en fyrra met átti hann sjálfur (68 ára). Ferðafélag Íslands veitti Sturlaugi viðurkenningu fyrir göngugleði haustið 2010.“

 

Þetta nítugasta ársþing UDN í fyrrakvöld var fremur illa sótt. Ætla má að veðrið og færðin hafi átt sinn þátt í því enda er sambandssvæðið mjög víðlent. Þingforseti var Egill Sigurgeirsson á Mávavatni á Reykhólum. Þingritarar voru Svanborg Guðbjörnsdóttir á Kambi í Reykhólasveit og Guðrún Jóhannsdóttir, Sólheimum í Laxárdal. Sérstakir gestir voru Helga G. Guðjónsdóttir formaður Ungmennafélags Íslands og Sæmundur Runólfsson framkvæmdastjóri þess.

 

Finnbogi Harðarson á Sauðafelli í Dölum var endurkjörinn formaður UDN. Aðrir í aðalstjórn eru Herdís R. Reynisdóttir, Efri-Múla í Saurbæ, varaformaður, Eyjólfur Sturlaugsson í Búðardal, Hjalti Viðarsson í Búðardal og Rebekka Eiríksdóttir á Stað í Reykhólasveit.

 

Þau Eyjólfur, Hjalti og Rebekka eru ný í aðalstjórn en úr henni gengu að þessu sinni Eygló Kristjánsdóttir gjaldkeri, Baldur Gíslason meðstjórnandi og Svanborg Guðbjörnsdóttir ritari.

 

Aðildarfélög UDN eru Afturelding, Dögun, Glímufélag Dalamanna, Golfklúbburinn í Dölum, Hestamannafélagið Glaður, Hestamannafélagið Kinnskær, Ólafur pá, Stjarnan og Æskan.

 

Myndirnar á þinginu (myndir nr. 2 og 3) tók Herdís Erna Matthíasdóttir á Reykhólum.

 

21.03.2011  90. sambandsþing UDN haldið á Reykhólum

 

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31