Tenglar

28. ágúst 2008 |

Guðni gleymdi ekki Vestfjörðum, en ...

Guðni Ágústsson. Ljósm. althingi.is.
Guðni Ágústsson. Ljósm. althingi.is.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, segist ekki hafa gleymt Vestfjörðum þegar hringferð hans um landið var skipulögð. Athygli hefur vakið fyrir vestan að ekki er auglýstur fundur á Vestfjörðum í hringferð formannsins sem nú stendur yfir. Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins.

 

Guðni bendir á, að í þessari hringferð sé ekki gert ráð fyrir fundi í höfuðborginni eða stóru sveitarfélögunum sem liggja að borginni. Hann segir stefnt að því að boða til fundar á Vestfjörðum í september eða október. Mikilvægt sé að formaður flokksins fari um landið og hitti fólk. Vestfirðir séu þar engin undantekning.

 

Hér virðist sem gert sé ráð fyrir einum fundi á Vestfjörðum þegar kemur fram á haustið. Eins og samgöngum er háttað eru litlar líkur á því að fólk úr Reykhólasveit sæki fundinn hjá Guðna ef hann verður á Ísafirði. Milli Reykhóla og Ísafjarðar eru 240 km ef farið er um Þorskafjarðarheiði en vegurinn þar er með alversta móti um þessar mundir. Ef farið væri um firðina í Austur-Barðastrandarsýslu og um Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði er leiðin 255 km.

 

Fljótlegra væri og færi auk þess betur með bíla og fólk að hitta og hlýða á Guðna í heimabyggð hans á Selfossi, en þangað eru 270 km frá Reykhólum - á bundnu slitlagi alla leið.


Þetta segir e.t.v. eitthvað um vegalengdir og vegamál á Vestfjörðum. Ekki síst þegar áform um stórfellda sameiningu sveitarfélaga eru höfð í huga.
  

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31