Tenglar

5. febrúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Gullsteinn á Gufudalshálsi

Ástvaldur Guðmundsson við Gullstein.
Ástvaldur Guðmundsson við Gullstein.
1 af 2

Gullsteinn sf. á Reykhólum hefur verið í fréttum vegna verðlauna í Nýsköpunarkeppni Vestfjarða. Gullsteinn sjálfur sem fyrirtækið dregur nafn sitt af er á vestanverðum Gufudalshálsi milli Gufudals og Kollafjarðar; af honum eru þjóðsögur og sagnir. Þar á meðal er sú saga af komu hans á sinn stað á hálsinum, að Grettir Ásmundarson (sem átti eitt sinn veturvist á Reykhólum eins og frægt er, kannski það hafi verið þá) hafi kafað eftir honum niður á sjávarbotn og borið hann þarna upp.

 

Í ritinu Þar minnast fjöll og firðir, ýmislegt um Gufudalshrepp hinn forna í máli og myndum er meðfylgjandi mynd af Gullsteini. Maðurinn við steininn er annar höfunda ritsins, Ástvaldur heitinn Guðmundsson frá Kleifastöðum í Kollafirði, ekki langt fyrir utan þar sem Gullsteinn stendur hátt uppi. Þar segir að til álita komi að fornmenn hafi talið vætt Gufudalshálsins búa í steininum. Síðar segir á þessa leið:

 

Eftirfarandi saga um Gullstein er prentuð í Íslenskum þjóðsögum I eftir Einar Guðmundsson, bls. 39-41.

  • Austan við Galtará, norðan Breiðafjarðar, er háls einn, sem Gufudalsháls nefnist. Er hann brattur mjög, einkum að vestan. Þar stendur all-tæpt á hamrabrún nokkurri stór steinn eða grettistak, sem Gullsteinn heitir. Um hann er sögð þessi saga:
  • Eitt sinn kafaði Grettir Ásmundarson eftir steini út í Breiðafjörð skammt frá hálsinum, þar sem Eyrarland heitir. Þegar til lands kom, hóf hann steininn á höfuð sér, gekk með hann upp á hálsinn og studdi hann á leiðinni með litlufingrunum. Grettir lét steininn síðan á hamrabrúnina, og áður en hann skildi við hann, fal hann undir honum hjálm, belti og sverð. Þessir gripir voru allir úr skíra gulli. Af þeim er dregið heiti steinsins.
  • Þess er til getið, að Grettir hafi viljað, að steinninn fengi ávallt að vera kyrr. Því kvað hann hafa látið svo um mælt, að ef steininum yrði velt niður, þá skyldu bæirnir í byggðalögum í kring standa í skíðlogandi báli.
  • Vetur einn fyrir ævalöngu fengu þrír ungir menn þar í einhverri nærsveitinni sér nesti og nýja skó, því að þeir ætluðu að fara til og velta Gullsteini. Konur löttu þá mjög til fararinnar. En ungu mennirnir fóru sínu fram, því að þeim lá girnd á gullgripunum. Komið var undir sólsetur, þegar þeir komu að steininum. Taka þeir nú allir á. Í því bili, sem þeir oka steininum, sýnist þeim slá á hann skærum eldbjarma, og verður þeim þá litið til byggða. Sjá þeir þá eldhöf mikil í nærsveitunum, og sýnist hverjum fyrir sig sinn bær brenna glaðast. Hlupu þeir þá hver heim til sín, sem fætur toguðu. Þegar heim kom, sáu þeir, að þetta hafði verið missýningar einar eða sjónhverfingar, er þeim höfðu verið gerðar, en létu svo staðar numið.

 

Enn í dag stendur Gullsteinn á Gufudalshálsi.

 

Tvennt er ljóst. Sagan gerir hlut Grettis afarmikinn og skrásetjari sögunnar hefur aldrei komið að Gullsteini. Önnur gerð sögunnar segir dverga búa í steininum. Þeir voru gullsmiðir góðir og gátu verið svo viðsjárverðir að ástæða hafi verið til að blíðka þá með steinafórnum. Þessi gerð er prentuð í Vestfirskum þjóðsögum Arngríms Fr. Bjarnasonar, II. hefti.

 

14.12.2012 Ómetanlegt fróðleiksrit um Gufudalshrepp

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Aprl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30