Tenglar

13. nóvember 2015 |

Hægt væri að nýta hita affallsvatnsins betur

María Maack flytur framsögu sína.
María Maack flytur framsögu sína.
1 af 9

Fundurinn um jarðvarma á Reykhólum sem haldinn var í fyrrakvöld að frumkvæði og með framsögu Maríu Maack lukkaðist vel. Um 40 manns mættu og lögðu til athugasemdir, spurningar og ýmis áhugaverð umræðuefni. Þörungaverksmiðjan hefur nýlega látið mæla streymi úr borholum og virðist staðan vera samsvarandi við fyrri mælingar. Hiti lónar í kringum 100°C og yfir 35 l koma úr holum án þess að vera dælt upp. Nýjasta hola Orkubúsins uppi við Kötlulaug hefur ekki enn verið tengd við hitaveituna. Bæði þaðan og frá holu hitaveitunnar nálægt Kúatjörn lekur ónotað heitt vatn, svo að ekki er ástæða til að óttast vatnsþurrð.

 

Sagt var frá samningum um jarðvarmanýtingu frá 1996 sem eru enn í gildi. Þeir eru ekki í samræmi við nýjustu lög um auðlindanotkun frá 1998, þar sem þess er krafist að þeir sem hafa nýtingarrétt á holum (nú Orkubú Vestfjarða og Þörungaverksmiðja) sendi reglulega upplýsingar um hita, þrýsting og jafnvel efnagreiningu vatns til Orkustofnunar. Engin nýtingarleyfi eru í gildi heldur koma samningarnir í þeirra stað. Mælt er með því að nýtingarréttur sé á einni og sömu hendi.

 

Haukur Jóhannesson jarðfræðingur, sem áður var hjá Orkustofnun, hefur nýlega tekið saman upplýsingar um jarðhita og holur á öllum Vestfjörðum. Hann telur að á Reykhólum sé einn megin hitageymir sem flestar holurnar tengjast. Ýmislegt bendir til að bráðlega þurfi að hreinsa upp elstu holur og örva rennsli þeirra. Það er ódýrara en að bora nýjar holur. Varasamt er að bora nýjar holur ef bæta á við rennsli, því að holur hafa sumar étið hver frá annarri. Hins vegar væri hægt að nýta hita affallsvatnsins betur, enda er það 50-60°C heitt þegar því er skilað í sjóinn frá iðjuverunum í Karlsey. Þetta sést á því sem nefnist Lindals Diagram eða fjölnotaaðferð Líndals. Í böð og laugar nægir 40 gráður og í hitaveitu um 80°C.

(Mynd nr. 7).

 

Í nýju skipulagi fyrir Reykhóla sést að í bígerð er að koma upp þjónustusvæði og laugum suðvestan við þorpið í átt að Laugavík. Affallsvatnið frá iðnaðnum gæti nýst í böðin, en spurningin er hver á affallsvatnið, hvaða reglur gilda um verðlagningu, eftirlit og skiptingu kostnaðar fyrir nauðsynlegar breytingar við að koma vatninu nær byggðinni.

 

Hitaveituvatnið á Reykhólum er sérstaklega heitt miðað við aðrar hitaveitur, enda er rúmmetrinn seldur á 202 krónur, sem er allt að tvöfalt hærra verð en í öðrum hitaveitum. Of hátt hitastig í hitaveitunni var til umræðu og hugsanlegar lausnir til að lækka það.

 

Guðmundur Ólafsson sagði frá þremur tillögum sem Verkís hefur stungið upp á:

  1. Að kæla heita vatnið með köldu vatni. Það er ekki skynsamlegt miðað við að kalt vatn er af skornum skammti á Reykhólum og hætt er við tæringu.
  2. Að leiða affallsvatnið í tank t.d. nálægt Kúatjörn og veita því þaðan í uppblöndun og böð. Kostnaður við nýja leiðslu væri um 30 milljónir.
  3. Að taka affallsvatn frá skólanum, Barmahlíð og húsunum austast á Hellisbraut til að blanda við framrásarvatnið í hitaveitunni. Allar slíkar breytingar eru dýrar og notendur fáir.

Almennt áttaði fólk sig á því að ekki væri verið að nýta alla möguleika sem auðlindin færir íbúum. Einnig að nýtingarréttur er flókinn og erfitt greina löglegar hliðar málsins. Íbúar báru að það er eftirsjá í hitaveitunni og vildu hafa meira um málið að segja.

 

Í lokin greindi María Maack frá því að hún hyggst setja fram nokkrar tillögur að betri nýtingu vatnsins og reyna að fá fjárveitingu til að fá tæknifræðing til að setja upp nokkur kostnaðardæmi í kringum þær.

(Mynd nr. 9).

 

Svipmyndirnar frá fundinum (nr. 1-6) tók Sveinn Ragnarsson. Myndir nr. 7-9 fylgdu framsögu Maríu Maack.

 

Sjá einnig:

Íbúafundur um jarðvarmann á Reykhólum

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31