Hæsta tré Vestfjarða á Barmahlíð, 20,06 m.
Skógræktin hefur verið að mæla hæð trjáa á Vestfjörðum. Í gær voru sitkagrenitré á Barmahlíð í Reykhólahreppi mæld og þar var hæsta tréð 20,06 metrar á hæð. Björn Traustason, sérfræðingur á Mógilsá, sagði í samtali við Bæjarins besta að þvermál þess sé 43,6 cm., en mælt er þvermál trjáa í 1,3 m. hæð.
Í dag voru Skógræktarmenn við mælingar í Haukadal í Dýrafirði og þar reyndist hæsta tréð, ösp, vera 19,44 metrar á hæð. Þvermál þess er 36 cm. Er því talið öruggt að tréð á Barmahlíð sé það hæsta á Vestfjörðum.
Öspin í Haukadal er hins vegar mun yngri en sitkagrenið á Barmahlíð, en öspin er frá 1974.
Skógræktin hefur nýlega flutt starfsemi sína á Vestfjörðum í húsnæði Vestra á Ísafirði og eru starfsmenn Kristján Jónsson og Sigrún Júlía Brynleifsdóttir.
Frá þessu er sagt á bb.is.
Jón Atli Játvarðarson bætir við eftirfarandi klausu:
„Gaman að fá þessa mælingu. Elstu trén á Barmahlíðinni og þar með þetta efnismikla tré voru gróðursett 1948. Þetta voru frekar fá tré og var vandað sérstaklega til gróðursetningar og meðal annars komið með skít í hestakerru og blandað samanvið moldina í gröfnum holum.
Þessu lýsti Ragnar Sveinsson á Hofstöðum fyrir mér og eitthvað fékk ég líka af frásögnum hjá Jens Guðmundssyni á Reykhólum. Komu þeir að þessari gróðursetningu ásamt Ingibjörgu Árnadóttur á Miðhúsum og fleirum.
Girðingin á Barmahlíðinni var fáeinum árum eldri en þessi fyrsta gróðursetning. Þetta tré hefur gengið undir nafninu Klifurtréð, eftir að ég hreinsaði það til klifurs um 1990 og svo aftur seinna þegar hægt var að treysta á gildnandi greinar. Er hægt að klifra að 10 metrum sé aðgát höfð. Mér þótti merkilegt að eftir að ég fækkaði greinum á því til klifurs þá virtist vöxtur þess aukast.“
Pétur Halldórsson, fimmtudagur 13 jn kl: 09:49
Stórskemmtilegt! En mig langar að benda á að Skógrækt ríkisins er ekki lengur til. Nú heitir stofnunin Skógræktin eftir sameiningu skógræktarstofnana árið 2016.