Hæsta tré Vestfjarða á Barmahlíð: Forskotið minnkar
Skjólskógar á Vestfjörðum voru í gær með grunnnámskeið í skógrækt í Bjarkalundi fyrir nýja skógarbændur á starfssvæði sínu. Í hádegishléi brá hópurinn sér út á Barmahlíð til að sjá með eigin augum hvað getur með tímanum orðið úr starfi skógræktarfólks, en þar stendur rétt ofan vegarins afar fallegur lundur íturvaxinna sitkagrenitrjáa. Eitt þessara trjáa ber titilinn hæsta tré Vestfjarða og mældist nú réttir 19 metrar á hæð og þvermál stofnsins í brjósthæð 41,5 cm.
Sæmundur Kr. Þorvaldsson í Lyngholti í Dýrafirði, framkvæmdastjóri Skjólskóga, segir að athygli hafi vakið, að í vegkantinum meðfram þessum fallegu trjám er nú að vaxa upp urmull sjálfsáinna greniplantna. Hann sagði ekki nema rétt að benda fólki á að fá leyfi hjá skógræktarfélagi hreppsins til að stinga þessar plöntur upp og gróðursetja á góðum stað. „Hvort tveggja er, að þarna fá þær ekki vaxa að gagni vegna nálægðar við veginn, og eins má fullvíst telja að hér séu á ferðinni trjáplöntur sem eru enn betur aðlagaðar að veðurfari á staðnum en foreldrarnir, sem sagt hinn allra besti efniviður,“ segir hann.
Gaman að geta þess, að nú stendur yfir hörð og tvísýn keppni um það hvaða tré á Vestfjörðum rýfur fyrst 20 metra hæðarmúrinn. Núna í haust eru 20 ár frá því að tré náði því marki í fyrsta sinn á Íslandi, rússalerki í Hallormsstaðarskógi. Það tré á Vestfjarðakjálkanum sem keppir helst við sitkagrenið á Barmahlíð er alaskaösp í Haukadal í Dýrafirði, sem mælist nú 18,13 m. Eins og áður sagði mældist sitkagrenitréð á Barmahlíð réttir 19 metrar þegar það var mælt í gær. Sæmundur segir að vandlega verði fylgst með þessum trjám og til árlegra mælinga verði fengnir hlutlausir sérfræðingar á Rannsóknarstöð skógræktar á Mógilsá.
Skjólskógar mældu bæði þessi tré í fyrsta sinn vorið 2000 og var þá Barmahlíðartréð 14,2 metrar en Haukadalstréð 11,45 metrar. Þannig var munurinn þá hátt á þriðja metra en nú er hann aðeins 87 cm. Síðustu 15 árin hefur grenið vaxið um 32 cm árlega að jafnaði en öspin um 45 cm. Samkvæmt þessu ættu bæði trén að rjúfa 20 metra hæðarmúrinn einhvern tíma vaxtarsumarsins 2018, ef ekkert kemur fyrir vaxtarsprota fram að því. „Og þá er bara að gera sig kláran í að mæla svo sem vikulega það sumar,“ segir Sæmundur Kr. Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Skjólskóga.
Myndirnar sem hér fylgja tók Sæmundur á Barmahlíð í gær.
► 16.08.2011 Hæsta tré Vestfjarðakjálkans er í Reykhólasveit