Tenglar

16. ágúst 2011 |

Hæsta tré Vestfjarðakjálkans er í Reykhólasveit

Sitkagreni (Picea sitchensis).
Sitkagreni (Picea sitchensis).

Fyrir skömmu var brugðið mælistiku á nokkur hæstu tré Vestfjarða til að fylgjast með hæðarmetum líkt og gert hefur verið öðru hverju frá aldamótum. Árið 2000 reyndist hæsta tré Vestfjarða vera í skóginum á Barmahlíð í Reykhólasveit („hlíðin mín fríða“) og var þá 14,2 m á hæð. Þetta er sitkagrenitré sem var gróðursett á árunum 1946-49. Núna í síðustu viku voru skógfræðinemar frá Hvanneyri þar á ferð og brugðu máli á tréð sem nú reyndist vera 18,3 m. Á ellefu árum hefur það því hækkað um liðlega fjóra metra. Þetta tré heldur enn sessi sínum sem hæsta tré Vestfjarða og allmörg tré í sama lundi eru litlu lægri.

 

Þetta kemur fram á fréttavefnum bb.is á Ísafirði.

 

Þar er jafnframt rætt við Sæmund Þorvaldsson á Læk í Dýrafirði, framkvæmdastjóra Skjólskóga á Vestfjörðum. Hann segir að liðlega 311.000 skógarplöntum hafi verið plantað af skógarbændum á starfssvæði Skjólskóga þetta sumarið. Nokkur vandamál hafi verið í gróðursetningum vegna þurrka og viðbúið að skakkaföll séu þar nokkur.

 

Þótt vorið hafi ekki verið hlýtt segir Sæmundur að góðviðri og hlýindi einkum í júlímánuði hafi gagnast trjágróðri vel á Vestfjörðum. Engar tiltakanlegar skemmdir urðu vegna vorkulda en tré voru lengi að hefja vöxt.

 

Hæsta öspin á Vestfjörðum sem starfsmönnum Skjólskóga er kunnugt um stendur í húsagarði í Haukadal í Dýrafirði (Miðbær). Tréð var mælt um aldamót og var þá 11,6 metrar en var gróðursett sem um eins metra há planta árið 1974. Nú er þetta tré 17,4 metrar og hefur hækkað um nærri sex metra á tólf árum. Ef svo fer fram sem horfir má reikna með að 20 metra trjáhæðarmarkinu verði náð á Vestfjörðum á næstu fjórum til sex árum, segir Sæmundur.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31