Hæsti styrkurinn kemur á Reykhóla
Sjávarsmiðjan á Reykhólum og Reykhólahreppur í sameiningu hlutu hæsta styrk Ferðamálastofu „til skipulags og hönnunar áfangastaða fyrir ferðamenn“ að þessu sinni. Tuttugu umsóknir bárust en fimm verkefni hlutu styrki. Annað verkefni í grenndinni hlaut einnig styrk, en það varðar Flókatóftir við Brjánslæk á Barðaströnd. Styrkurinn sem kemur í hlut Sjávarsmiðjunnar og Reykhólahrepps nemur 2,9 millj. króna. Verkefnið er skilgreint á þessa leið:
- Hanna og þróa faglega heildarmynd fyrir svæðið og þá uppbyggingu sem þar á að fara fram og er ætluð ferðamönnum. Um er að ræða bætt aðgengi til sjóbaða, göngustíga, hleðslur í hringum hveri, aðgengi og verndun á gamalli torfsundlaug. Hanna merkingar, bæði til að miðla upplýsingum um öryggi og aðgengi sem og í fræðslutilgangi um náttúru- og söguminjar svæðisins.
Athygli vekur, að þrír af styrkjunum fimm renna til verkefna á Vestfjarðakjálkanum og sá fjórði fer á „næsta bæ við“ eða í Hrútafjörðinn.
Hinir styrkirnir fjórir og lýsingar á verkefnunum:
Útihvalasafn og göngustígar í Súðavík, kr. 2.500.000
Hanna og skipuleggja útihvalasafn í gömlu byggðinni í Súðavík, sem og göngustíga við sjávarsíðuna þar sem saga hvalveiða og vinnslu við Álftafjörð verður sögð í máli og myndum á upplýsingaskiltum.
Hrútleiðinlegt safn í Hrútafirði, kr. 1.800.000
Endurhanna sýningarrými og inngang í byggðasafninu á Reykjum í Hrútafirði, sem og endurskipuleggja útisvæði safnsins með það að markmiði að tengja það betur sögu héraðsins.
Flókatóftir við Brjánslæk á Barðaströnd, kr. 1.700.000
Vinna hönnun og skipulag við Flókatóftir við Brjánslæk á Barðaströnd, friðlýstar fornleifar sem draga nafn sitt af Hrafna-Flóka. Verkefninu er ætlað að vekja athygli á merkri sögu svæðisins og hvernig, samkvæmt sögnum, hugmyndin um nafnið Ísland varð til á svæðinu.
Óbyggðasafn Íslands, kr. 1.100.000
Vinna hönnun og skipulag við Óbyggðasafn Íslands sem verður byggt upp á sveitabænum Egilsstöðum. Bærinn er innsta byggða bólið í Norðurdal í Fljótsdal og er við þröskuld Vatnajökulsþjóðgarðs og við stærstu óbyggðir Norður-Evrópu. Markmið Óbyggðasafnsins er að bjóða upp á hágæða menningarferðaþjónustu sem byggir á menningararfi og náttúru óbyggðanna og jaðarbyggða þeirra.
Áætlað er styrkir sem þessir verði aftur í boði á næsta ári og að auglýst verði eftir umsóknum haustið 2013.
► Stöð 2 heimsækir Sjávarsmiðjuna á Reykhólum (myndskeið úr fréttum)