Tenglar

31. desember 2014 |

Hætt rekstri búðarinnar eftir fjögur ár og átta mánuði

Eyvindur og Ólafía í versluninni Hólakaupum. Nánar neðst í meginmáli.
Eyvindur og Ólafía í versluninni Hólakaupum. Nánar neðst í meginmáli.

Fátt var eftir af vörum í Hólakaupum á Reykhólum þegar versluninni var lokað síðdegis í dag. Þau Eyvindur Svanur Magnússon og Ólafía Sigurvinsdóttur tóku við rekstri búðarinnar vorið 2010, en núna eru þau hætt, eins og legið hefur fyrir um nokkurt skeið. „Þessi tími hér á Reykhólum hefur verið mjög skemmtilegur, og verður vonandi áfram,“ segja þau.

 

„Þrátt fyrir að við hættum þessum rekstri erum við ekki með nein plön um að fara héðan eins og nú standa sakir. Það hefur verið sérlega gott fyrir börnin að vera hér frekar en í Reykjavíkinni.“

 

Eins og fram hefur komið hyggst Eyvindur hasla sér völl í ferðaþjónustu á Vestfjörðum og vinnur nú að undirbúningi þess.

 

– Þegar þið ákváðuð að koma hingað á Reykhóla og reka hér verslun, þá hafið þið væntanlega verið búin að kynna ykkur aðstæðurnar til þess mjög vel ...

 

„Nei, ákvörðunin um að koma hingað og taka við versluninni var tekin nánast á tíu mínútum. Við fréttum á sunnudegi að þessi búð væri á lausu og vorum komin hingað daginn eftir og handsöluðum kaupin við þáverandi eigendur. Það var í byrjun febrúar 2010. Við tókum svo við rekstrinum í byrjun maí. Þetta var ákveðið tækifæri fyrir okkur til að sleppa úr Reykjavík. Upphaflega átti þetta að vera eins manns starf en varð mjög fljótlega að tveggja manna starfi, og getur ekki verið minna.“

 

– Þið munuð hafa umsjón með eldsneytisafgreiðslunni á Reykhólum eitthvað áfram ...

 

„Já, við sömdum við hreppinn, sem á húsnæðið, um að hafa aðgang að því eitthvað fram eftir vetri, að minnsta kosti á meðan engin starfsemi yrði í húsinu. Við verðum því áfram enn um sinn umboðsmenn fyrir N1 og höfum umsjón með eldsneytisdælunum.“

 

Eins og ýmsir vita eru eldsneytistankarnir á Reykhólum á undanþágu vegna aldurs, líkt og tankarnir í Króksfjarðarnesi voru þegar eldsneytissala þar var lögð niður á liðnu vori.

 

„Já, þeir eru komnir á tíma,“ segir Eyvindur. „Það var á dagskránni í sumar að skipta hér um tanka þó að ekkert hafi orðið úr því. En ég veit ekki annað en menn hafi ennþá fullan hug á því að skipta hér um tanka og halda áfram eldsneytissölu.“

 

Þau Ólafía og Eyvindur biðja um að komið sé á framfæri þökkum til viðskiptavinanna á liðnum árum, sem og fólksins sem hefur unnið með þeim og fyrir þau við afgreiðslustörfin.

 

„Þetta hefur oft verið strembið, langar vaktir og langir dagar, en gaman að hafa getað rekið verslun á litlum stað úti á landi með sóma. Það er sannarlega grundvöllur fyrir því að reka verslun hér á Reykhólum ef fólk hefur næga orku og úthald.“

 

Myndin sem hér fylgir var tekin fyrir fjórum árum og átta mánuðum, eða í byrjun maí 2010 þegar þau Ólafía og Eyvindur tóku við rekstri búðarinnar. Í stað þess að taka nýja mynd varð að ráði að birta núna í lokin mynd frá upphafinu. Enda hafa þau sjálf svo sem ekkert breyst; munurinn er sá, að þá voru hillurnar fullar af vörum en núna á gamlársdegi árs og búðar á Reykhólum voru þær nánast tómar.

 

Athugasemdir

Dalli, fstudagur 02 janar kl: 20:02

Ég vil þakka Ólafíu og Eyvindi fyrir góðan rekstur Hólakaupa og ánægjuleg viðskipti.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31