Hættan er ljós: Ungt fólk á ekki að fara í ljósabekki
Vakin er athygli á því að börn og unglingar eru næmari en aðrir fyrir skaðlegum áhrifum geislunar frá ljósabekkjum og sól. Tíðni húðkrabbameins hefur aukist mikið á síðustu áratugum, einkum tíðni svonefndra sortuæxla, en þau eru alvarlegasta tegund húðkrabbameins og algengasta tegund krabbameins hjá konum á aldrinum frá 15 til 34 ára.
Foreldrar og aðrir forráðamenn fermingarbarna eru hvattir til að fara að tilmælum alþjóðastofnana um að börn og unglingar fari ekki í ljósabekki. Nýlega hafa verið settar fram tillögur á norrænum vettvangi um að banna þeim sem eru yngri en átján ára að fara í ljós. Slíkt bann hefur þegar tekið gildi í nokkrum löndum, m.a. Skotlandi.
Í kjölfar fræðsluherferðanna síðustu ár hefur dregið úr ljósabekkjanotkun ungs fólks og nokkrar sveitarstjórnir hafa hætt að bjóða upp á sólböð í ljósabekkjum í íþróttamannvirkjum sínum. Með herferðinni er stefnt að því að draga enn frekar úr ljósabekkjanotkuninni. Leitað verður til presta landsins um að leggja málefninu lið, eins og undanfarin ár.
Nú er að koma út fræðslurit um sortuæxli (pdf). Krabbameinsfélagið gefur ritið út en höfundar eru læknarnir Bárður Sigurgeirsson og Jón Hjaltalín Ólafsson.
Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins greinast að meðaltali 50 manns á ári með sortuæxli í húð, 60 með önnur húðæxli og um 225 manns með svonefnd grunnfrumuæxli í húð. Á allra síðustu árum hefur heldur dregið úr tíðninni. Ár hvert deyja að meðaltali níu Íslendingar úr sortuæxlum í húð.
- Frétt frá Félagi íslenskra húðlækna, Geislavörnum ríkisins, Krabbameinsfélaginu, Landlæknisembættinu og Lýðheilsustöð. Upplýsingar gefa Guðlaug B. Guðjónsdóttir hjá Krabbameinsfélaginu, sími 540 1900, og Þorgeir Sigurðsson hjá Geislavörnum ríkisins, sími 552 8200.