Hafa áhyggjur af töfum á vegabótum
„Bæjarstjórnin leggur á það sérstaka áherslu, að Vegagerðin leggi fullan þunga í endur/nýbyggingu vegarins frá Eiði við Vattarfjörð að Þverá í Kjálkafirði meðan greitt verður úr þeim óvissuþáttum sem tengjast B-leiðinni um Teigsskóg“, segir í fundarbókun. Bæjarstjóra var falið að senda yfirlýsinguna til þeirra er málið varða.
Eins og fram hefur komið úrskurðaði Skipulagsstofnun að vegagerð á umræddri leið skuli háð mati á umhverfisáhrifum þar sem framkvæmdin kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Vegagerðin, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur kærðu niðurstöðuna til umhverfisráðherra fyrr á árinu þar sem hún hefur í för með sér tafir á fyrirsjáanlega bráðnauðsynlegum vegabótum. Umhverfisráðherra staðfesti úrskurð Skipulagsstofnunar.
Þetta kom fram á fréttavefnum bb.is.