29. desember 2014 |
Hafa umsjón með eldsneytissölu eitthvað áfram
„Fulltrúar Kaupfélags Steingrímsfjarðar skoðuðu nú í desember þann möguleika að reka hér útibú eftir áramót, en gáfu afsvar núna á laugardaginn. Þar með er lokið tilraunum okkar til að selja reksturinn og lokun blasir við,“ segir Eyvindur Svanur Magnússon, kaupmaður í Hólakaupum á Reykhólum.
„Við Ólafía viljum þakka viðskiptavinum okkar í gegnum tíðina, einnig því starfsfólki sem starfað hefur með okkur. Við vonum að búð verði opnuð hér á ný. Þess má geta að við höfum áfram umsjón með eldsneytisafgreiðslu að minnsta kosti fram eftir vetri og að N1 hefur fullan hug á að vera hér með afgreiðslu áfram,“ segir Eyvindur.