31. ágúst 2008 |
Hafna hugmyndum um lágmarksfjölda
Flokksráð Vinstri grænna hafnar hugmyndum um lögbindingu lágmarksstærðar sveitarfélaga. Eins og fram hefur komið hyggst ráðherra sveitarstjórnarmála leggja fram frumvarp þess efnis, að lágmarksfjöldi í sveitarfélagi verði þúsund manns. Í ályktun sem samþykkt var á fundi flokksráðs VG í gær segir: „Íbúar eiga að hafa svigrúm og sjálfræði til að meta kosti og galla sameiningar við önnur sveitarfélög og ákveða með hvaða hætti samstarfi þeirra á milli skuli háttað. Flokksráðið telur brýnt að úttekt verði framkvæmd á efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum þeirra sameininga sem hafa átt sér stað á undanförnum árum."