Hafnaframkvæmdir í Reykhólahreppi
Þessa dagana er verið að dýpka Reykhólahöfn. Verktaki er Hagtak hf.
Að þessu sinni er aðallega verið að halda við innsiglingunni og fjarlægja efni sem sjórinn ber í rennuna og höfnina jafnt og þétt, núna eru 2 höft í rennunni. Efninu, sem er mestu sandur og leir, er mokað upp í pramma sem flytur það út á dýpi, utan siglingaleiða. Pramminn tekur 150 m3 í ferð.
Þeir hjá Hagtaki reikna með að verkið taki um 3 vikur, en veður getur sett strik í reikninginn. Hingað að Reykhólum komu þeir með prammana frá Arnarstapa á Snæfellnesi, þar sem unnið var að töluvert mikilli dýpkun í vetur, en bátum hefur fjölgað þar og þeir stækkað.
Samkvæmt verk- og kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar er kostnaður við verkið um 36.7 milljónir kr. Hlutur hafnarsjóðs Reykhólahrepps er 10% af þeirri upphæð, en 90% eru greidd úr Hafnabótasjóði.
Flateyjarhöfn
Þann 21. apríl voru opnuð tilboð í stækkun ferjubryggju í Flatey og byggingu sjóvarnargarðs. Í verkið bárust 2 tilboð, bæði vel yfir áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar sem var tæpar 36 millj. Ístak hf. í Mosfellsbæ bauð 74.1 millj. og Bryggjuverk ehf. Í Keflavík 44.7 millj. Þegar svo mikið ber í milli tilboða og kostnaðaráætlunar er hætta á töfum við verksamninga en vonandi finnst lausn á því fljótt. Hér er um brýnar endurbætur að ræða, sem dregist hafa um árabil.
Gunnar Sveinsson, rijudagur 05 ma kl: 23:21
Nú þarf Vegagerðin að taka ákvörðun fljótt og strax um að taka lægsta tilboði þó það sé rúmlega tuttugu prósendum hærra en útreikningar Vegagerðarinnar segja til um. Við í Flatey eru búin að bíða ótrúlega mörg ár eftir því að eitthvað verði gert fyrir okkur. Ég og allir í Flatey treystum á að framkvæmdir hefjist núna í maí mánuði. Bryggjan er slysagildra og hættuleg og ég vona að framkvæmdir hefjist sem fyrst.
Gunnar Sveinsson
Eyjólfshúsi, Flatey
p.s. Ég samgleðst ykkur á Reykhólum að loksins er farið í framkvæmdir við Reykhólahöfn. Löngu tímabært og búið að bíða lengi eftir þessum nauðsynlegum framkvæmdum.